Home / Fréttir / Rússnesk herflutningaþota skotin niður – allt enn á huldu um manntjón

Rússnesk herflutningaþota skotin niður – allt enn á huldu um manntjón


Eldur blossaði upp þegar vélin féll til jarðar.

Flutningaþota rússneska flughersins, Iljúshíjn Il-76, breyttist í eldhnött þegar hún féll til jarðar miðvikudaginn 24. janúar skammt frá rússnesku landamæraborginni Belgorod norðaustur af Úkraínu. Herir Rússlands og Úkraínu nota flugvélar af þessari gerð til þungaflutninga á skriðdrekum, flutningabílum, vopnum, tækjum og mönnum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að í þotunni hafi verið 65 úkraínskir stríðsfangar á leið til fangaskipta. Úkraínumenn sjálfir hafi grandað þeim.

Þegar fréttirnar bárust var ekki talið að örlög flugvélarinnar hefðu mikil áhrif á gang stríðsins í Úkraínu. Eftir að hafa barist í tæp tvö ár breytast víglínur nú lítið. Helst var rætt um að fréttirnar minnkuðu baráttuvilja Úkraínumanna sem ekki hafa náð því sem að var stefnt með gagnsókn hers síns og eru nú bitbein í Washington vegna ágreinings á þingi um langþráðan fjárstuðning til vopnakaupa við Úkraínustjórn.

Fyrstu fréttir um hrap þotunnar bárust undir hádegi að staðartíma miðvikudaginn 24. janúar. Þá greindi héraðsstjóri Belgorod-héraðs sem liggur að Úkraínu frá „atviki“ fyrir norðaustan Belgorodborg. Úkraínuher hefur hvað eftir annað sent flugskeyti á skotmörk í héraðinu og jafnframt skipulagt þar fyrirsát.

Skömmu síðar, um 12,30 að staðartíma, tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið að herflutningavél af gerðinni Iljúshíjn Il-76 hefði brotlent. Ráðuneytið sagði að 65 úkraínskir stríðsfangar hefðu verið um borð ásamt sex manna áhöfn og þremur fylgdarmönnum.

Myndskeið tóku að birtast á félagsmiðlinum Telegram. Þar mátti sjá flugvél stefna til jarðar og hverfa á bakvið tré áður en mikil sprenging varð og svartur reykur liðaðist til himins.

Síðdegis birti rússneska ríkisfréttastofan TASS myndskeið af flugvélarflaki á snævi þöktum akri. Nokkur slík myndskeið komu einnig á Telegram.

Skömmu eftir að rússnesku fréttirnar birtust sögðu nokkrir fjölmiðlar í Úkraínu, þar á meðal Ukrajinska Pravda og RBK-Ukrajina, að ef til vill hefði úkraínsk loftvarnaflaug grandað þotunni. Þessar frásagnir hurfu hins vegar fljótlega af miðlunum.

Þegar brugðist var við af opinberri hálfu í Úkraínu sagði Andrij Jusov hjá leyniþjónustu hersins, GUR, að áætlað hefði verið að skiptast á föngum milli Rússa og Úkraínumanna 24. janúar en af fangaskiptunum yrði ekki.

GUR birti tilkynningu að kvöldi 24. janúar þar sem sprenging vélarinnar var staðfest en ekki væri neitt vitað um hvort úkraínskir hermenn hefðu verið um borð í vélinni.

Gefið var til kynna rússneskir embættismenn hefðu leynt upplýsingum um fangaskipti og lífi stríðsfanga væri vísvitandi stefnt í hættu.

Í reglulegu kvöldávarpi sínu hvatti Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti til þess að alþjóðleg rannsóknarnefnd kynnti sér flugslysið. Rússar léku sér að lífi stríðsfanga, tilfinningum ástvina þeirra og samhug Úkraínumanna.

Síðdegis fimmtudaginn 25. janúar útilokaði GRU ekki að bæði flugskeyti og Úkraínumenn kynnu að hafa verið um borð í rússnesku flutningaþotunni. Rússar hefðu notað úkraínska stríðsfanga sem „skjöld“ við flutning á skotfærum.

Andrij Jusov, talsmaður GUR, sagði við Radio Liberty að aðeins fimm lík hefðu verið flutt í líkhús skammt frá Blegorod.

Þá segir hann einnig að skömmu áður en fllugvélin tók á loft hafi rússneska öryggislögreglan bannað háttsettum Rússum að fara um borð í hana.

Dmytro Lubinets, mannréttindastjóri Úkraínu, sagði sérkennilegt að Rússar hefðu ekki lagt fram neitt því til sönnunar að 65 úkraínskir stríðsfangar hefðu farist, myndir eða myndskeið.

Síðar á fimmtudeginum sýndu rússneskir fjölmiðla, þar á meðal Readovka og RIA Novosti, myndskeið sem sögð eru sýna staðinn þar sem rússneska herþotan féll til jarðar.

Þar má sjá líkamsleifar tveggja einstaklinga á jörðinni og víða er snjórinn rauður. Ekki kemur fram hver tók myndirnar og óháðir aðilar hafa ekki staðfest uppruna þeirra.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …