Home / Fréttir / Rússnesk flotadeild fer úr Barentshafi á leið til Miðjarðarhafs – líkur á skot- og sprengjuæfingum austan Íslands

Rússnesk flotadeild fer úr Barentshafi á leið til Miðjarðarhafs – líkur á skot- og sprengjuæfingum austan Íslands

 

Siglingaleið rússnesku flotadeildarinnar - sprengjuæfingar austan Íslands.
Siglingaleið rússnesku flotadeildarinnar – sprengjuæfingar austan Íslands.

Talið er að rússneski flotinn efni til skot- og sprengjuæfinga fyrir austan Ísland og norðan Skotlands næstu daga. Flaggskip rússneska flotans, flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og sjö önnur herskip sigldu laugardaginn 15. október af stað frá Severomorsk á Kóla-skaga. Úr Barentshafi fara þau á milli Noregs og Íslands og að líkindum um Norðursjó og Ermarsund á leið sinni inn í Miðjarðarhaf og í áttina að strönd Sýrlands fyrir botni þess.

Norðmenn fylgjast með ferðum flotans undan ströndum Noregs og síðan tekur hver NATO-þjóðin við af annarri og vaktar ferðir hans.

Breski flotinn sendir líklega tvö herskip til að hafa auga með rússneska flotanum á meðan hann siglir með ströndum Bretlands.

Admiral Kuznetsov er eina flugmóðurskip Rússa. Skipið hefur undanfarið verið til viðgerða og endurnýjunar í skipasmíðastöð nr. 35 á Kólaskaga. Um borð eru nokkrar MiG-29KR/KUBR, nýjar fjölnota flugvélar. Þar að auki eru Su-33 orrustuþotur um borð og ný tegund af Katran, eftirlits- og orrustuþyrlu.

Flugmóðurskipið ásamt fylgdarskipum bætist við flota rússneskra herskipa sem eru nú á Miðjarðarhafi. Talið er að minnst sex rússnesk herskip séu fyrir á Miðjarðarhafi auk þriggja til fjögurra hjálparskipa.

Admiral Kuznetsov er 43.000 tonn og varð árið 1990 hluti af flota Rússlands. Skipið getur borið allt að 41 flugvél. Skipið var smíðað í Úkraínu og hét fyrst Riga, síðan Leonid Brezhev, þá Tbilisi þar til það varð loks að Admiral Flota Sovetskovo Soyuza Kuznetsov.

Í breska blaðinu The Daily Mail segir laugardaginn 15. október að fréttir berist frá Moskvu um að Kremlverjar hafi gefið fyrirmæli til embættismanna um að senda öll ættmenni sín erlendis heim til Rússlands með flugi. Enginn sem óhlýðnist þessu fái stöðuhækkun. Sumir túlki fyrirmælin sem „enn eitt skref til styrjaldar“.

Í blaðinu er minnt á að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi á dögunum hætt við för til Parísar vegna deilna um Sýrland og skammt sé síðan Rússar hafi flutt kjarnorkueldflaugar til Kaliningrad við landamæri Póllands. Þá hafi Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi Sovétleiðtogi, nýlega sagt að heimurinn stæði á „hættulegum punkti“ vegna vaxandi spennu milli Rússa og Bandaríkjamanna.

Frá Bandaríkjunum berast nú fréttir um að CIA, bandaríska leyniþjónustan, undirbúi tölvuárás á Rússa.

Ýmsir hernaðarsérfræðingar segja Rússa ekki búa sig undir stríð heldur vilji þeir sýna mátt sinn og meginn til að fæla Vesturlandamenn frá  að trufla sprengjukast sitt í Sýrlandi.

Liður í þessu „sjónarspili“ Kremlverja hefur verið að láta ríkissjónvarpsstöðvar í Rússlandi sýna fólki hvað skynsamlegast sé að gera verði ráðist á Rússland. Almennir borgarar hafa verið hvattir til að átta sig á hvert styst sé fyrir þá að fara í skjól vegna loftárása. Þá hefur almenningur verið beðinn um að kynna sér hvert sé hlutverk einstakra stofnana ríkisins komi til styrjaldar.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …