Home / Fréttir / Rússnesk flotaæfing ögrar Norðmönnum

Rússnesk flotaæfing ögrar Norðmönnum

Haakon Bruun-Hansen
Haakon Bruun-Hansen

Flókin og umfangsmikil flotaæfing Rússa á Noregshafi hefur það markmið að loka aðgangi NATO að Eystrasalti, Norðursjó og Noregshafi segir Haakon Bruun-Hansen, yfirmaður norska hersins, við norska ríkisútvarpið, NRK.

Alls taka 30 rússnesk herskip þátt í æfingunni, herskip, kafbátar og birgðaskip úr rússneska Norðurflotanum, Eystrasaltsflotanum og Svartahafsflotanum.

Norski hershöfðinginn segir að vegna flotaæfinganna standi Norðmenn frammi fyrir „þjóðarögrun“.

Forystuskip rússneska flotans er Severmorsk, 163 metra langur tundurspillir. Þá tekur nýja freigátan Admiral Gorshkov einnig þátt í æfingunni.

Bruun-Hansen telur Rússa ætla að senda Bandaríkjamönnum og NATO skilaboð með æfingunni:

„Við okkur blasir mynd af stórveldakeppni sem við höfum séð áður. Noregur er varla skotmarkið, hnattstaða okkar er röng með tilliti til þess að við kunnum að verða dregin inn í hugsanlega árekstra milli tveggja fylkinga. Vandi okkar er að við ráðum litlu sem ríki um gang mála,“ segir Bruun-Hansen. Hann tekur hins vegar af skarið um að Norðmenn geti stuðlað að stöðugleika og reynt að koma í veg fyrir að kapphlaupið leiði til átakalínu í eða við Noreg.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rússar stunda æfingar undan strönd Noregs en umsvifin eru langtum meiri en áður.

Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, fagnar ekki framvindu mála.

Fyrir nokkrum dögum sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann lagði áherslu á fyrirsjáanleika í áætlanagerð við skipulag og framkvæmd heræfinga en Rússar hefðu ekki slík viðmið. Það væri ekki nein skýring á því hvers vegna Rússar veldu sér æfingasvæði svona vestarlega en auk þess nálægt Noregi sagði varnarmálaráðherrann.

„Norðmenn eru ekki ánægðir með þessa þróun, við fylgjumst náið með æfingunni.,“ sagði hann.

Fyrir utan að 30 rússnesk skip séu við flotaæfingar á Noregshafi lætur rússneski herflotinn að sér kveða víðar við æfingar.

Tveir hópar turndurduflaslæðara með alls sex skip voru miðvikudaginn 14. ágúst við æfingar á Barents-hafi. Við norðaustur horn Rússlands var tíu skipa floti auk rúmlega 1.000 hermanna við æfingar fyrir utan Kamstjaka-skaga.

Þá er öflug flotadeild undir stjórn Olegs Golubevs flotaforingja á langferð um Norður-Íshaf með viðdvöl í nokkrum rússneskum herstöðvum sem hafa nýlega fengið andlitslyftingu.

 

Heimild: Barents Observer

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …