Home / Fréttir / Rússnesk áróðurssíða birtir þýskan óhróður um Ísland sem ósjálfstætt ríki

Rússnesk áróðurssíða birtir þýskan óhróður um Ísland sem ósjálfstætt ríki

1014612861

Á rússnesku net-fréttasíðunni Sputniknews birtist mánudaginn 15. ágúst endursögn af grein eftir Þjóðverjann Joachim Sondern sem birtist á þýska netfréttablaðinu Bürgerstimme laugardaginn 13. ágúst.

Sondern (f. 1984) lýsir sjálfum sér sem áhugamanni um þjóðfélagslega heimspeki.

Þegar textinn eftir Joachim Sondern er lesinn skýrist vel hvers vegna ritstjórar rússneskrar áróðurssíðu á borð við Sputniknews telja gott fyrir málstað sinn að vekja athygli á henni.

Hér birtist texti Joachims Sonderns í heild í lauslegri þýðingu:

„Í óteljandi bloggum og annars konar fréttamiðlum var borið lof á lýðræðisskilning Íslendinga eftir „byltinguna“ sem var svarið við fjármálakrepppunni á árinu 2008. Þetta var engan veginn undarlegt því að út á við virtist þetta í raun eins og Íslendingar risu upp gegna bandaríska fjármálaiðnaðinum. Þó er svo komið árið 2016 að ekki er lengur unnt að tala um andstöðu gegn áhrifum Bandaríkjanna og NATO: í skjóli hræsnisfullra yfirlýsinga um „rússnesk árásaröfl“ snýr bandaríski herinn að nýju til Íslands, nýtir eyjuna til að ögra Rússum.

Þess hefði mátt vænta að augljóslega sterk, norræn þjóð hefði getað veitt mótspyrnu og viðurkennt að Bandaríkin og NATO-ríkin eru hin sönnu árásaröfl. Rússar ögra nefnilega ekki Vesturlöndum á neinn hátt, um árabil hafa Rússar verið friðsamir, þetta fela Íslendingar markvisst til að geta valið auðveldu pólitísku leiðina.

Íslendingar eru nú í hópi framtíðar tapþjóða – sem hneigja sig nú þegar í duftið fyrir valdi Bandaríkjanna og NATO. Aðeins sá sem sýnir nægilegt hugrekki til að velja sína eigin leið sigrar að lokum og kemst hjá því að taka þátt í lokaspretti NATO sem ræðst af skorti á vestrænni framtíðarsýn.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru það efnahagskerfi BRICS-ríkjanna [nýmarkaðsríkjanna Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína] sem duga best, fólk um allan heim viðurkennir hvílíka framtíð BRICS hefur undir Rússlandi. Hvort sem um er að ræða sjálfstæða mynt, þróunarbanka eða bann við erfðabreyttum matvælum – í öllum tilvikum boðar Valdimir Pútín nýja hugsun. Þetta er ástæðan fyrir ótta NATO-veldanna um að heimsmynd þeirra hrynji eftir því sem áhrif BRICS verða meiri á íbúa þeirra.

Í raun nutu Íslendingar aldrei frelsis. Strax í miðri annarri heimsstyrjöldinni varð hernaðaraðstaðan í Keflavík að mikilvægri strategískri stöð fyrir Bandaríkjamenn. NATO var auk þess gagnlegt fyrir Ísland í kalda stríðinu. Síðan missti Ísland hernaðarlegt gildi sitt í augum Bandaríkjamanna sem lokuðu að eigin frumkvæði herstöð sinni árið 2006. Nú ætla ráðamenn í Washington að „spandera“ 21,4 milljónum bandarískra dollara á íslenska vini sína til að endurnýja hernaðarlega aðstöðu í Keflavík, enn og aftur stafar ógn af „vondum“ Rússum.

Þótt það sé örugglega sárt falla Íslendingar nú fyrir lygasögum bandamanna sinna. Íslendingar láta þess vegna blekkjast af tilbúnum sögum um óvini og haldlausum stríðsögrunum að mati NATO. Íslendingar ættu að banna Bandaríkjamönnum að fá taktíska aðstöðu sem kynni að ögra Rússum frekar. Enginn væntir þess að Íslendingar leggi Rússum á nokkurn hátt lið en hins vegar hefði mátt vænta pólitísks hlutleysis, ósjálfstæði Íslendinga í sögulegu ljósi kemur hins vegar í veg fyrir það.

Er Ísland lén NATO? Já, því miður – góð nótt Ísland!“

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …