Rússneskir verkfræðingar hafa smíðað vélmenni sem gerir skriðdrekum og öðrum vígdrekum kleift að fara ferða sinna án þess að stjórnandi sitji um borð í þeim. Frá þessu er sagt í rússneskum fjölmiðlum laugardaginn 22. ágúst.
„Þetta snjallkerfi okkar má setja í næstum öll tæki sem búin eru rafeinda-stjórntækjum til að fylgjast með ferðum þeirra, hvort sem um er að ræða dráttarvél eða fallbyssu á hjólum,“ sagði Alexander Grivatsjev, yfirmaður rannsókna- og þróunar í ríkisháskólanum í Kursk, við Krasnaija Zvezda, blað rússneska hersins.
Til að sýna hvernig nýta mætti uppfinningu sína settu vísindamennirnir hana í frumstæða gerð af hinum sögufræga T-34 skriðdreka. Hann fór síðan af stað og sneiddi hjá hindrunum með aðstoð nema sem hafði verið komið fyrir á hliðum hans, þeir gátu meira að segja fundið tilbúið skotmark með því að snúa turni skriðdrekans.
„Það er unnt að fastsetja endastöð vélmennisins með því að þrýsta á ákveðinn punkt á snertiskjá. Vélmennið stýrir þá farartækinu þangað á allt að 30 km hraða á klst. fram hjá föllnum trjám eða öðrum litlum hindrunum með aðstoð gervisjónar og nema. Þá má einnig færa alla fyrirhugaða leið inn á skjáinn. Í báðum tilvikum þarf vélmennið aðeins aðstoð annarra þegar það stendur frammi fyrir erfiðum hindrunum, öll stjórn véla um borð í farartækinu er í höndum vélmennisins hvort sem um er að ræða rafkerfið eða dísilvélina,“ segir í tilkynningu frá háskólanum.
Vélmennið og forrit þess er að fullu smíðað í Rússlandi án aðstoðar erlendra aðila.
„Við höfum fulla og stöðuga stjórn á því sem vélmennið gerir til að hindra með virkum hætti að vélarnar geti tekið völdin af fólki, að eitthvað gerist sem sjá má í kvikmyndum um Tortímandann,“ segja hönnuðir nýja kerfisins.
Heimild: sputniknews.com