Home / Fréttir / Rússland: Uppnám meðal erlendra fyrirtækja eftir aðförina að Calsberg

Rússland: Uppnám meðal erlendra fyrirtækja eftir aðförina að Calsberg

Baltika-Pikra, eitt sf átta brugghúsum Calbergs í Rússlandi.

Danskir sérfræðingar líkja Rússlandi við villta vestrið eftir að Vladimir Pútin forseti ritaði sunnudaginn 16. júlí undir tilskipun um að rússneska ríkið tæki stjórn á rússnesku dótturfyrirtæki danska brugghússins Calbergs í sínar hendur.

Talið er að stjórn á öðrum dönskum fyrirtækjum sem enn starfa í Rússlandi kunni að vera í hættu og má þar nefna fyrirtæki eins og ECCO og Rockwool.

Í tilskipun Pútins fólst einnig yfirtaka á stjórn á rússnesku útibúi franska fyrirtækisins Danone. Í apríl hrifsaði rússneska ríkið til sín þýska orkufyrirtækið Uniper og finnska orkufyrirtækið Fortums.

Í Rússlandi eru brugghús Calsbergs starfrækt undir heitinu Baltika. Húsin eru átta talsins með um 8.400 starfsmenn.

Carlsberg kynnti í júní að fyrirtækið hefði fundið kaupanda að Baltika eftir leit í marga mánuði. Calsberg hefur einnig mánuðum saman sætt þungri gagnrýni fyrir að halda úti rekstri í Rússlandi þrátt fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Ekki hefur verið sagt frá því hver væntanlegur kaupandi Baltika var og ekki heldur hve hátt verð hann bauð.

Margt er óljóst varðandi áhrif tilskipunar Pútins en Mikkel Emil Jensen, yfirmaður greiningardeildar í Sydbank, sagði mánudaginn 17. júlí í samtali við Berlingske að Pútin hefði sett allt söluferlið í uppnám. Hugsanlega kunni Calsberg að neyðast til að yfirgefa Rússland án þess að fá nokkuð fyrir þessa eign sína.

Carlsberg hefur þegar afskrifað um 20 milljarða DSK af verðmæti rússnesku eignar sinnar og viðskipta hennar. Starfsemin í Rússlandi er þó enn bókfærð á meira en 7 milljarða.

Jens Worning, fyrrv. aðalræðismaður í St. Pétursborg og eigandi að greiningarfyrirtækinu Policy Group, segir að óvissa ríki um öll fyrirtæki sem starfi enn í Rússlandi.

„Þetta er aðeins staðfesting á að markaðurinn í Rússlandi er löglaus þar sem eignarrétturinn er að engu hafður. Menn ákveða ekki sjálfir neitt, afhendi þeir ekki hlutabréf sín núna strax getur allt gerst,“ segir hann.

Lögfræðingurinn Jacob Ørskov Rasmussen, einn af eigendum lögmannsstofunnar Plesner, er sömu skoðunar og Worning eftir að hafa fylgst með framgöngu rússneskra yfirvalda gegn alþjóðlegum fyrirtækjum sem vilja komast frá Rússlandi. Hann telur að helst megi líkja ástandinu í Rússlandi við villta vestrið.

„Maður getur einfaldlega ekki haft nógu hraðar hendur. Hafi fyrirtæki ákveðið að koma sér frá Rússlandi verður bara að gefa í eins og frekast er unnt.“ Reynt sé að bregða fæti fyrir þá sem vilji fara en kröfurnar á hendur þeim eigi ekki eftir að minnka.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …