
Tugir þúsunda Rússa fóru í mótmælagöngur laugardaginn 28. júlí til að andmæla umdeildum áformum um að hækka eftirlaunaaldur í Rússlandi.
Kynnt hefur verið stjórnarfrumvarp um að hækka eftirlaunaaldur karla í 65 ár árið 2028 og í 63 ár fyrir konur árið 2034. Nú eru þessi aldursmörk 60 ár fyrir karla og 55 ár fyrir konur.
Af hálfu yfirvalda hefur árum saman verið vakið máls á nauðsyn breytinga í þessa veru í ljósi breytinga á lífaldri, vinnuafli og fjárlagagerð.
Þegar tillögurnar voru kynntar í júní fór reiðialda um allt Rússland. Það þótti ríkisstjórninni ekki til framdráttar að hún kynnti áætlun sína rétt í sama mund og heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hófst. Gagnrýnendur sögðu að hún hefði ætlað að lauma þessu í gegn á meðan hugur almennings var við knattspyrnuna.
Vinsældir Pútíns hafa minnkað umtalsvert síðan tillögurnar birtust. Í fyrri viku reyndi hann að lægja gagnrýnina með því að segjast ætla að hlusta á „allar skoðanir“ á málinu.
Rússneski kommúnistaflokkurinn hafði veg og vanda að mótmælunum laugardaginn 28. júlí. Aðrir hópar, eins og stuðningsmenn Alexeis Navalníjs, nýttu sér líka tilefnið til að ýta undir óánægju almennings.
Mótmælendur létu að sér kveða í borgum og bæjum víða um Rússland. Skipuleggjendur í Moskvu segja að allt að 100.000 manns hafi tekið þátt í fundi sem naut leyfis yfirvalda. Aðrir segja fundarmenn hafa verið mun færri.
Í Moskvu voru hrópuð slagorð eins og: „Láttu eftirlaunin vera, Pútín!“ og á borðum stóð: „Við viljum lifa af eftirlaununum og ekki vinna fram í dauðann.“
Krafa mótmælenda er meðal annars sú að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Verði það ekki gert muni „milljónir fara út á göturnar“. Þá verði ekki aðeins gerð krafa um óbreytt eftirlaunakerfi heldur einnig um nýja stjórn, afsögn ríkisstjórnarinnar, þingrof og málssókn á hendur forsetanum.
Í borginni Jakutks í Norður-Rússlandi vakti athygli að mótmælendur beindu, án nokkurs tilefnis, spjótum sínum að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sökuðu hann um breytingar á eftirlaunalögunum. Þá hrópuðu aðrir ókvæðisorð í garð Bandaríkjanna: „Látið ekki [bandaríska] utanríkisráðuneytið knésetja okkur!“
Tæplega 3 milljónir manna hafa ritað undir mótmæli gegn breytingunum á netinu.
Heimild: RFE/RL