Home / Fréttir / Rússland: Tíð slys sýna að flugherinn er á þolmörkum

Rússland: Tíð slys sýna að flugherinn er á þolmörkum

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, hefur gefið fyrirmæli um rannsókn á orsökum sjö flugslysa í rússneska flughernum frá því í júníbyrjun. Þau hafa öll orðið við venjulegar æfingar. Þetta segir í frétt RIA Novosti fréttastofunnar frá föstudeginum 24. júlí.

Talið er að flugslysin séu til marks um að aukin umsvif rússneska flughersins sem tengjast deilunum í Úkraínu hafi reynt um of á innviði heraflans. Flugherinn sé kominn að þolmörkum.

„Slysatíðni innan flughersins er enn einn helsti vandinn [sem blasir við hernum],“ sagði Shoigu á fundi í varnarmálaráðuneytinu föstudaginn 24. júlí. „Við verðum að átta okkur nákvæmlega á ástæðum þessara slysa og grípa til sérstakra ráðstafana til að bæta ástandið.“

Í blaðinu The Moscow Times sem ekki er alfarið undir stjórn Kremlverja er minnt á að á undanförnum 18 mánuðum hafi rússneskar hervélar verið mun meira á lofti en á árunum þar á undan. Kremlverjar hafi viljað sýna hernaðarmátt sinn með því að senda sprengjuvélar og orrustuþotur til að láta reyna á viðbrögð NATO í Evrópu og Norður-Ameríku.

Frá NATO hafa borist fréttir um að á árinu 2014 hafi verið flogið í veg fyrir 400 rússneskar flugvélar við lofthelgi bandalagsríkjanna sem er helmings aukning frá árinu 2013. Þessi auknu umsvif reyni á flugvélar hers Rússa sem að stofni til séu frá Sovéttímanum, sprengjuvélar og orrustuþotur séu því komnar til ára sinna.

TASS-fréttastofan segir að á árunum 2010 til 2014 hafi Rússar misst að meðatali eina flugvél á tveggja mánaða fresti. Undanfarnar sjö vikur hafa hins vegar orðið sjö flugslys og þau nái til ýmissa tegunda og gerða véla sem bendi til að vandinn sé ekki bundinn við eina tegund.

Frá því snemma í júní hefur flugherinn séð á bak tveimur Tu-95 Bear langdrægum sprengjuvélum, tveimur MiG-29 orrustuvélum, gamalli Su-24 árásarþotu, nýrri Su-34 orrustu-sprengjuvél og nú síðast Antonov An-12 herflutningavél.

Vélarbilun virðist vera sameiginlegt vandamál. Önnur Bear-sprengjuvélin rann út af flugbraut þegar kviknaði í hreyfli við flugtak. RIA Novosti hefur eftir ónefndum heimildarmanni að um miðjan júlí hafi drepist á öllum fjórum hreyflum hinnar Bear-vélarinnar þegar hún var í háloftunum.

Undanfarin ár hafa útgjöld rússneska ríkisins stórhækkað ár frá ár og árið 2010 var ráðist í að framkvæma áætlun um endurnýjun heraflans fyrir 350 milljarða dollara.

(Heimild The Moscow News)

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …