
Rússneska lögreglan handtók að minnsta kosti fjóra mótmælendur úr hópi þjóðernissinna í Moskvu sunnudaginn 4. nóvember. Efnt var til mótmæla gegn stjórnvöldum. Mótmælin tengjast þjóðeiningardegi Rússlands, föðurlandsdegi sem kom til sögunnar árið 2005.
Þrír skipuleggjendur mótmælaaðgerða þjóðernissinna í Ljublino-hverfinu, í suðaustur jaðri Moskvu, voru einnig handteknir að sögn OVD-Info, sjálfstæðs hóps sem fylgist með aðgerðum yfirvalda gegn hvers kyns andófi.
Fyrir utan mótmælin í Ljublino efndu rússneskir konungssinnar til útifundar í Sjhukino á norðaustur jaðri Moskvu.
Þjóðeiningardagur Rússlands var innleiddur að rússneskum stjórnvöldum árið 2005. Hann er frídagur sem Pútín stofnaði til að fagna sigri yfir Pólverjum árið 1612. Skyldi hann koma í stað hátíðarhaldanna sem kommúnistar efndu til 7. nóvember ár hvert til að minnast rússnesku byltingarinnar.
Að þessu sinni hafa stjórnvöld heimilað skrúðgöngur í 12 rússneskum borgum, þar á meðal St. Pétursborg og Jekaterinburg.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur notað frí- og hátíðardaginn til að ýta undir ættjarðarást og hvetja til einingar þjóðarinnar undir styrkri stjórn sinni og manna sinna í Kreml.
Undanfarin ár hefur komið til árekstra milli stjórnarandstæðinga og lögreglu í tengslum við daginn. Í fyrra handtók lögreglan rúmlega 70 mótmælendur eftir að þeir komu saman í Ljublino og lýstu andúð í garð ríkisstjórnarinnar.
Þótt Pútin hvetji til föðurlandsástar í boðskap sínum eru ekki harðlínumenn til stuðnings ágæti Rússa og slava ánægðir með stefnu hans og telja hann ekki ganga nógu langt. Þeim hefur undanfarin ár verið bannað að fara í skrúðgöngu um miðborg Moskvu.