Home / Fréttir / Rússland: Stríðsyfirlýsing ólíkleg á sigurdaginn 9. maí

Rússland: Stríðsyfirlýsing ólíkleg á sigurdaginn 9. maí

Hart tekið á mótmælendum í Moskvu.

Vangaveltur eru í fjölmiðlum um hvort Vladimir Pútin Rússlandsforseti ætli að nota rússneska sigurdaginn í síðari heimsstyrjöldinni, 9. maí, til að lýsa formlega yfir stríði gegn Úkraínu og þar með boða alla vopnfæra menn í rússneska herinn.

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútis, sagði miðvikudaginn 4. maí þegar hann var spurður um hvort við þessu mætti búast: „Þetta er vitleysa.“ Átti hann þá bæði við stríðsyfirlýsinguna og almenna herútboðið.

Rússar líta á 9. maí í senn sem minningar- og sigurdag og því var spáð að rússneskir herforingjar í Úkraínu vildu ná sem mestum árangri og helst sigri til að verða minnst í hátíðarræðum dagsins. Ekkert slíkt virðist á döfinni. Á hinn bóginn megi vænta þess að Pútin og legátar hans flytji tilfinningaríkar ræður í von um að fylkja Rússum að baki sér í stríðsátökunum.

Sergei Zhavoronkov, sérfræðingur við hagfræðistofnun í Moskvu segir við    Robert Coalson, fréttamann RFE/RL, að almennt herútboð yrði til að afla Pútin óvinsælda og stórminnka stuðning við stríðið. Eitt sé að fylgjast með átökunum eins og tölvuleik, annað að láta það snerta beint fjölmarga Rússa og fjölskyldur þeirra.

Bent er á að í Rússlandi sé óþarft að efna til almenns herútboðs til að bæta um 200.000 manna liði við her Rússa í átökunum við Úkraínumenn. Líklegt sé að í nágrenni Úkraínu hafi þegar verið gerðar ráðstafanir til skikka þennan fjölda til að ganga í herinn.

Hefur RFE/RL eftir Vladimir Milov, fyrrv. vara-orkumálaráðherra Rússa, sem nú hefur snúist gegn Pútin, að þúsundir manna í nágranna héruðum Úkraínu sendi nú bréflegar fyrirspurnir um hvernig þeir geti komist hjá herkvaðningu og að verða sendir til Úkraínu. „Þeir eru þegar byrjaðir að skrá alla sem þeir geta,“ sagði Milov um rússnesku herstjórnina.

Robert Coalson segir líklegt að í stað þess að verða með stríðsyfirlýsingar nýti Kremlverjar sigurdaginn í von um að geta virkjað almenning til stuðnings við stríðsaðgerðir sínar. Minnt verði á stórveldishlutverk Rússlands í anda sovéttímans og alið á tilfinningunni um að sótt sé af illum huga að Rússum úr vestri. Jafnframt verði enn hert á tröllslegum aðgerðum Pútins til að brjóta allt andóf innan Rússlands á bak aftur.

Þá kunni Pútin að árétta fullyrðingar sínar um að Rússar eigi í höggi við nazista. Natalja Shavshukova, stjórnmálaskýrandi í Moskvu, segir við RFE/RL að í þeim áróðri birtist „brenglaður skilningur“ Kremlverja á nazisma.

Hún vitnar til þess að Kremlverjar segist eiga „í stríði við allan heiminn“. Þeir segi: „Allur heimurinn er á móti okkur og við berjumst fyrir óskilgreindu réttlæti, fyrir fortíð okkar o.s.frv.“

Shavshukova segir að nú skapi það Pútin og stjórn hans mikinn vanda að almennt hugi Rússar aðeins að sínu og lúti ekki hvatningu neins. Þetta sé sjálfskaparvíti, Pútin og menn hans hafi hvatt þjóðina til að halda sér í skefjum svo að þeir geti farið sínu fram.

„Við sjáum að það er frekar erfitt að ýta á eftir opinberum starfsmönnum til að taka þátt í aðgerðum á götum úti honum til stuðnings,“ segir hún. „Fólk skrifar fúslega athugasemdir á samfélagsmiðla. Það er tilbúið að veita samþykki með þögn sinni. Það er tilbúið til að gera hvað sem er svo að það fái að vera í friði til að sinna eigin málum. Þetta er samnefnari forræðis-samfélaga. Nú reynir Pútin að breyta því í alræðissamfélag – virkja það.“

Spá hennar er að í því skyni kunni Pútin að hressa upp á sigurdaginn með því að nýta sér sovéska áróðurstækni og sýna að nýju gunnfána og önnur hernaðarleg tákn.

„Ég held að búast megi við endurreisn sovéskra tákna og fullyrðinga um að Rússland sé beinn arftaki Sovétríkjanna með kröfum um endurheimt stórveldis innan landamæranna frá 1991,“ segir Shavashukova.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …