Home / Fréttir / Rússland: Sprenging í flutningum á Norðurleiðinni

Rússland: Sprenging í flutningum á Norðurleiðinni

Rússneskur ísbrjótur.
Rússneskur ísbrjótur.

Maksim Kulenko, varaforstjóri rússneska ríkisfyrirtækisins Rosatom, sem fer með málefni Norðurleiðarinnar, siglingaleiðarinnar fyrir norðan Rússland, sagði á norðurslóðaráðstefnu í Moskvu í vikunni að „sprenging“ hefði orðið í sjóflutningum á Norðurleiðinni.

Í ár hafa 18 milljónir tonna verið fluttar með skipum á leiðinni. Í frétt TASS segir að búist sé við að þessi tala verði 30 milljónir tonna á næsta ári.

Rosatom heldur úti flota kjarnorkuknúinna ísbrjóta og undir fyrirtækið fellur einnig gerð og viðhald innviða á heimskautasvæðum Rússa.

Flutningamagnið á Norðurleiðinni hefur aukist um 68% frá 2017 þegar magnið var 10,7 milljónir tonna. Þessar tölur eru þó ekki til marks um að flutningar eftir leiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs hafi aukist, árið 2017 voru um 200.000 tonn flutt alla þessa leið, talan fyrir árið 2018 er svipuð.

Magnaukninguna á þessu ári má einkum rekja kolvetna. Orkufyrirtækið Novatek opnaði í nóvember 2018 þriðju vinnslulínuna við útflutning á jarðgasi sjóleiðis frá Jamal-skaga. Ársframleiðslan er nú 16,5 milljónir tonna. Risastór gasflutningaskip (LNG-skip) eru nú í reglulegum ferðum frá Sabetta-höfn á Jamal-skaga. Sigla þau í austur eða vestur.

Samhliða þessu hefur olíuframleiðsla aukist á þessum slóðum. Fyrirtækið Gazprom Neft hefur í ár aukið framleiðslu sína við Novíj-höfn á Jamal í um 8 milljónir tonn. Öll olían er flutt með skipum um Ob-flóa. Þá eru einnig flutt um 30 milljón tonn af kolum á ári frá Tajbass, kolanámum á norðurodda Tajmjir-skaga.

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …