
Komið hefur til óvenju harkalegra orðaskipta milli forystumanna Rússlandsstjórnar í Moskvu og þeirra sem stjórna einu blómlegasta héraði landsins. Eru deilurnar taldar til marks um spennuna sem hefur magnast vegna tilrauna ráðamanna í Moskvu til að bæta fjárhagsstöðu alríkisins með því að ganga í fjárhirslur einstakra héraða af meiri hörku en áður.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu eftir Robert Coalson á vefsíðu Radio Free Europe/Radio Liberty (RFE/RL) mánudaginn 2. janúar. Þar segir að ríkisstjórn Tatarstan-lýðveldisins hafi reynt að lægja öldurnar á æðstu stöðum með því að afturkalla útskrift af ræðu forseta síns þar sem hann sagði fyrirmæli frá Moskvu um að héruðin ættu að leggja meira fé í sameiginlegan sjóð „heimskuleg“ og líkti þeim undir rós við óbilgjarna stefnu sovéska einræðisherrans Jóefs Stalíns á sínum tíma.
Afturköllun textans kom þó ekki í veg fyrir að Dmitríj Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, fengi veður af honum. Hann lét þau boð strax berast að ekki yrði hróflað við einu orði í fyrirmælum alríkisins.
Efnahagsástandið í Rússlandi hefur versnað mikið undanfarin tvö ár vegna lækkunar á orkuverði um heim allan og áhrifa efnahagsþvingana Vesturlanda eftir innlimum Krímskaga í Rússland og virkan stuðning Rússa við aðskilnaðarsinna í Úkraínu.
Meðal þeirra ráða sem gripið hefur verið til í Moskvu til að bæta fjárhagsstöðu alríkisins er að auka hlutdeild þess í 20% tekjuskatti úr 2% í 3%.
Þessi ákvörðun varð til þess að Rustam Minnikhanov, forseti Tatarstan, fór hörðum orðum um ráðamenn í Moskvu á fundi héraðsstjórnarinnar 27. desember 2016. Hann lýsti þessu sem „einstaklega hættulegri aðgerð“ og sagði:
„Einhliða ákvörðun var tekin á alríkisstigi. Ekkert samkomulag. Hér er um að ræða enn eina tilraunina til að breyta reglunum um sameiginlega fjármögnun. Þeir sem skila góðum árangri fá ekki alríkisgreiðslur. Almennt séð er þetta heimskulegt. Hvert stefnir landið? Við myndum sameiginlegt ríki. Hvernig getum við nú tekið þátt í alríkis-verkefnum?“
Minnikhanov gekk svo langt að bera stefnuna um að „jafna á milli“ svonefndra gjafa-héraða og styrkja-héraða við alræmda stefnu Stalíns um að ganga á eignir sæmilegra stæðra bænda og afhenda þær samyrkjubúum. „Við sáum afleiðingar þess,“ sagði forseti Tatarstan og vísaði þar til hungursneyðarinnar sem leiddi af stefnu Stalíns og varð milljónum manna að bana.
Vegna þess hve eldfim ummælin voru ákvað ríkisstjórn Tatarstan að hverfa frá þeirri hefð að birta útskrift af ræðu forsetans og gaf staðar-fjölmiðlum einnig fyrirmæli um að birta ekki myndskeið frá fundinum.
Medvedev forsætisráðherra svaraði á þennan veg:
„Við millifærslu fjár ber einkum að taka mið að þörfum þróunar-héraða, félagslegum þörfum og öðrum mikilvægum þáttum en ekki aðeins héruðum, sérstaklega ekki gjafa-héruðum sem geta af eigin ramleik staðið undir fjárfestingum hjá sér.“
Rússnesk saga geymir mörg dæmi um spennu innan Rússlands þegar harðnar í ári og fjárskortur verður. Spennan er milli fáeinna héraða sem leggja meira af mörkum til sameiginlegs ríkissjóðs alríkisins en þau fá úr honum, þetta eru svonefnd gjafa-héruð, og fjölmargra héraða sem verða að fá styrki frá alríkinu til að endar nái saman, þetta eru svonefnd styrkja-héruð. Af 83 héruðum sem mynda Rússland (auk tveggja héraða, Krím og Sevastopol, sem hrifsuð voru af Úkraínu árið 2014) eru aðeins 14 skilgreind sem gjafa-héruð. Aðeins eitt hérað – Kaluzhskaja Oblast – hefur bæst í þann hóp á undanförnum 10 árum.
Á árinu 2016 voru 10 helstu styrkja-héruðin: Daghestan, Jakútía, Kamtsjatka, Krím,Tjsetsjenía, Altai, Tjíva, Burjatia, Stavropol, and Bashkortostan. Styrkur til þeirra var áætlaður 216 milljarðar rúblna (3,5 milljarðar dolla) í fjárlögum, rúmlega 40% af öllum styrkjum til einstakra héraða. Í blaðinu Kommersant segir að héraða-styrkir aukist um 9% árið 2017.
Staðan batnar ekki við að mörg styrkja-héraðanna eru skuldum vafin og gert er ráð fyrir að 510 milljörðum rúblna verði á árunum 2016 og 2017 varið til að breyta dýrum markaðslánum þeirra í lán á vegum alríkissjóðs í Moskvu. Kæmi þessi aðstoð ekki til yrðu allt að 20 héruð gjaldþrota.
Á árlegum blaðamannafundi sínum 23. desember 2016 viðurkenndi Vladimír Pútín Rússlandsforseti að vandinn vegna skuldastöðu héraðanna væri „alvarlegur“ og sagði að fimm héruð hefðu brotið gegn reglu alríkisstjórnarinnar um að heildarskuldir þeirra mættu ekki fara yfir 50% af tekjum viðkomandi héraðs.
Um gjafa-héruðin sagði Pútín: „Við reynum að skapa aðstæður sem gera þeim kleift að viðhalda þessari stöðu.“
Ajart Fajzrakhamanov stjórnmálaskýrandi sem búsettur er í Kazan sagði við Robert Coalson hjá RFE/RL að viljaleysi ráðamanna í Moskvu til að ræða þetta mál við héraðsstjórnir á borð við þá sem er í Tatarsan væri „hættumerki fyrir landið í heild“. Hann sagði einnig:
„Í Rússlandi er ástandið nú þannig að litið er á fullkomlega eðlileg ummæli af þessu tagi eins og þrumu úr heiðskíru lofti. Er svo komið að fulltrúar héraðanna, ekki einu sinni þeir hæstsettu, geta ekki lengur sagt neitt um ástandið í eigin héraði eða stjórn mála almennt í Rússlandi?
Þetta er hættumerki fyrir landið í heild. Stöðugleiki stjórnmálakerfisins er reistur á getunni til að jafna ágreining. Milli ólíkra félagslegra hópa, milli fólks með ólíkar skoðanir, milli gjafa-héraða og styrkja-héraða. Hvernig í ósköpunum á að vera unnt að finna jafnvægi milli ólíkra hagsmuna ef sumum þátttakendum er bannað tala?“
Þungt hljóð í mönnum í Tatarstan mótast einnig af því að alvarleg bankakreppa ríkir nú í héraðinu. Helsti banki héraðsins, Tatfondbank, hætti allri þjónustu við viðskiptavini sína í desember 2016. Við það lokuðust reikningar og lánaleiðir margra einstaklinga og fyrirtækja. Kreppan veldur alhliða efnahagsvanda í héraðinu. Má þar til dæmis nefna að 23. desember 2016 lýsti stjórn skóverksmiðjunnar Spartak fyrirtækið gjaldþrota þegar það gat hvorki staðið við greiðslu afborgana né launa vegna gjaldþrots Tatfondbank.
Héraðsstjórnin beitti sér fyrir því að 27. desember gátu viðskiptavinir Tatfondbank fengið takmarkaðan aðgang að bankaþjónustu. Artem Zdunov, efnahagsmálaráðherra héraðsins, sagði 28. desember að ríkisstjórnin mundi „leggja sig fram“ um að bjarga Spartak.
Heimild: Robert Coalson sem skrifar um Rússland, Balkanríkin og Austur-Evrópu fyrir RFE/RL.