Home / Fréttir / Rússland: Ríkissaksóknari kannar álitamál vegna sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna

Rússland: Ríkissaksóknari kannar álitamál vegna sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna

Dalia Grybauskaite, forseti Litháens.
Dalia Grybauskaite, forseti Litháens.

Ríkissaksóknari Rússlands kannar nú lögmæti ákvörðunarinnar ríksráðs Sovétríkjanna frá árinu 1991 um að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja. Frá þessu var skýrt í Moskvu þriðjudaginn 30. júní. Siglir rannsóknin í kjölfar úrskurðar embættisins um að Krímskagi hafi verið gefinn Úkraínu á ólögmætan hátt árið 1954. Fréttir um rannsókn ríkissaksóknarans ýta undir ótta manna í Eistlandi, Lettlandi og Litháen um aukna íhlutun af hálfu Rússa í málefni landa sinna.

Dalia Grybauskaite, forseti Litháens, brást illa við ákvörðun ríkissaksóknara Rússlands um rannsóknina og sagði: „Enginn hefur rétt til að ógna okkur. Við öðluðumst sjálfstæði með blóði og fórnum lithásku þjóðarinnar.“

Tveir þingmenn flokksins Sameinað Rússland, sem hefur meirihluta á þingi Rússlands, skutu málinu til ríkissaksóknara með þeim rökum að ákvörðun ríkisráðs Sovétríkjanna um að viðurkenna sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens hefði verið ólögmæt. Í ákvörðuninni hefði falist „mikið tjón“ fyrir landið og þess vegna bæri að líta á hana sem „landráð“.

Talsmaður ríkissaksóknarans sagði embættið „bregðast við tilmælum löggjafans í samræmi við rússnesk lög“.

Litháar lýstu fyrstir yfir sjálfstæði árið 1990, síðan Eistlendingar og loks Lettar. Mikhaíl Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, gegndi formennsku í ríkisráðinu sem viðurkenndi sjálfstæði ríkjanna árið 1991.

Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, brást reiður við fréttum af athugun ríkissaksóknarans og sagði: „Ég vona að endir verði bundinn á þessa tilgangslausu aðgerð.“ Hann sagði að í henni fælist „ögrun“.

Fréttastofa Radio Free Europe segir að málið fari ekki hátt í Rússlandi og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hafi sagt við blaðamenn í Vínarborg að hann hefði ekki heyrt neitt um neina rannsókn. Hann vissi það eitt að Rússar hefðu stjórnmálasamband við þessi Eystrasaltsríki og hefðu gert milliríkjasamninga við þau,

Interfax-fréttastofan vitnaði í ónafngreindan heimildarmann hjá ríkissaksóknara sem sagði að hvað sem liði lögmæti ákvörðunar ríkisráðsins hefði niðurstaðan rannsóknar nú engin lagaleg áhrif vegna þess að Rússar gætu ekki breytt ákvörðuninni. Þetta væri „pólitískt álitamál“ og afstaða til þess mótaðist af stöðu mála á líðandi stundu, þar á meðal NATO-aðild ríkjanna þriggja.

Hvað sem þessu líður er ljóst að framvinda málsins vekur ýmsar óþægilegar spurningar einkum með vísan til innlimunar Krímskaga og stuðnings Rússa við aðskilnaðarsinna í Úkraínu. Tilmæli þingmannanna til ríkissaksóknarans endurspegla vaxandi reiði á þingi Rússlands vegna heimsmyndarinnar sem varð til við hrun Berlínarmúrsins. Raunar var óskað eftir því á síðasta ári að ríkissaksóknarinn kannaði lögmæti ákvarðana Gorbatsjovs og félaga sem leiddu til hruns Sovétríkjanna sjálfra.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …