
Vladimir Pútín verður forseti Rússlands til 2024 eftir sigur í forsetakosningunum sunnudaginn 18. mars. Þegar meira en helmingur atkvæða hafði verið talinn hafði Pútín fengið 75% atkvæða að sögn landskjörstjórnar.
Pútín ávarpaði fjöldafund í Moskvu þegar fyrstu tölur höfðu verið birtar og sagði að kjósendur kynnu að meta það sem áunnist hefði undanfarin ár.
Forsetinn ræddi við fréttamenn þegar sigurinn varð ljós og gerði grín að spurningu um hvort hann ætlaði að bjóða sig fram að nýju eftir sex ár.
„Þetta sem þú segir er bara fyndið. Heldur þú að ég ætli að vera hér þar til ég er 100 ára gamall? Nei!“ sagði hann.
Þess var fastlega vænst að Pútín sigraði í kosningunum. Hann virðist standa verulega betur nú en árið 2012 þegar hann fékk 64% atkvæða.
Pavel Gurdinin, milljónmæringur og frambjóðandi kommúnista, fær næstmest fylgi 13,2% þegar helmingur atkvæða hafði verið talinn.
Spátölur ríkisins um kjörsókn segja að hún hafi verið 63,7%, minni en árið 2012. Þetta eru vonbrigði fyrir Pútín þar sem kosningabarátta hans snerist í raun um að ná í sem flesta á kjörstað.
Vegna forsetakosninganna ræddi þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) við Mikhail Khodorkovskíj. Hann var á sínum tíma auðugasti maður Rússlands en Vladimír Pútín lét handtaka hann fyrir skattsvik árið 2003 og sat hann 10 ár í fangelsi áður en hann var óvænt náðaður og slapp til Vesturlanda.
Fréttamaður DW segir að sjónvarpsstöðvar í Rússlandi séu allar undir stjórn ríkisstjórnarinnar og það móti almenningsálitið. Engu að síður virðist yfirvöld taugaveikluð vegna kosninganna, hvers vegna?
Mikhail Khodorkovskíj: „Ástæðurnar fyrir taugaveikluninni eru af ýmsum toga. Í fyrsta lagi eru embættismenn taugaveiklaðir af ótta við að þeir verði „flengdir“. Sjálfir vita þeir ekki almennilega hvers vegna en hver þeirra ímyndar sér eitthvað með sjálfum sér. Þetta er þó ástæðan fyrir taugaveikluninni, þetta býr að baki öllum þessum bréfum og yfirlýsingum, þetta á við opinbera starfsnenn.
Í öðru lagi ríkir taugaveiklun af ótta við hugsanleg mótmæli á götum úti. Ljóst er að þau verða aldrei unfangsmikil en samt er eins og áður hugsanlegt að „verða flengdur“.
Í þriðja lagi er hugsandi fólk einnig taugaveiklað. Það má rekja til þess að enginn veit hvað gerist 19. mars.
DW: Nú, Pútín verður endurkjörinn til sex ára – og hvað svo?
„Eina nýmælið sem hann gat boðið í ræðu sinni er sjálfsmorðsvopn. Þetta var ekki mjög upplífgandi boðskapur. Enginn veit hvert maðurinn ætlar að draga þjóðina eftir að hafa stolið næsta kjörtímabili sínu.“
DW: Hvað verður Pútín forseti mörg kjörtímabil í viðbót?
„Fengi Pútín að ráða er þetta síðasta kjörtímabil hans. Hann vill, auðvitað, losna. Með hverju árinu sem líður verður Pútín háðari fólkinu næst sér. Brottför hans úr embætti yrði mjög áhugaverð fyrir þjóðina og tilfinningalega vill Pútín einnig fara og tilnefna eftirmann. Óhjákvæmilegt er þó að líta til hins að hvaða eftirmaður sem er gæti staðið að breytingum sem samrímast ekki lífi nánustu félaga Pútíns.“