
Baráttusamtök gegn skipulagðri glæpastarfi Organized Crime and Corruption Reporting Project (OCCRP) hafa birt bankaskjöl sem sýna að sellóleikarinn Sergei Roldugin, gamall vinur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, tók við fjármunum frá aflandsfélagi um svipað leyti og félagið var notað til að stela fé frá rússneska ríkinu. Þjófnaðarmálið er kennt við lögfræðinginn sem afhjúpaði stuldinn, Sergei Magnitskíj. Hann starfaði fyrir Bill Browder, bandarískan fjárfesti, sem skrifaði bókina Eftirlýstur til minningar um Magnitskíj sem var myrtur í rússnesku fangelsi.
Magnitskíj-málið snertir stuld á 230 milljón dollurum frá rússneska fjármálaráðuneytinu í einu mesta skattsvikamáli í stjórnartíð Pútíns. Magnitskíj afhjúpaði svikin árið 2006 en þá starfaði hann fyrir Hermitage Capital Management sem var þá stærsti erlendi fjárfestirinn í Rússlandi.
Sömu lögreglumennirnir handtóku Magnitskíj og hann sakaði um að hylma yfir svikin. Lögfræðingurinn var settur á bakvið lás og slá þar sem andaðist vegna illrar meðferðar og skorts á læknisaðstoð. Eftir andlát hans sótti rússneska ríkið hann áfram til saka.
OCCRP hefur kannað Panama-skjölin og fundið þar samning frá maí 2008 sem sýnir að Panama-fyrirtækið International Media Overseas SA (IMO), sem var alfarið í eigu Roldugins, seldi 70.000 hlutabréf í ríkisfyrirtækinu Rosneft fyrir rúmlega 800.000 dollara til Delco Networks SA (Delco) á Bresku jómfrúareyjum.
Fyrir hlutabréfin var greitt með fé sem millifært var af reikningi Delcos í UKIO Bankas í Litháen til IMO-reiknings Roldugins í Zürich-útibúi Rússneska viðskiptabankans (RBC).
Talið er líklegt að Delco og tengd fyrirtæki hafi verið hluti af stærri aflandskeðju sem nýtt var til peningaþvættis og nefnd var Proxy Platform. Skipulögð glæpasamtök stóðu að keðjunni sem náði til fyrirtækja og bankareikninga í Rússlandi, Moldóvu, Bretlandi, Lettlandi og erlendra skattaskjóla sem rússneska ríkisstjórnin og fjöldi glæpasamtaka notuðu til að stela fjármunum eða til peningaþvættis og til að komast hjá skattheimtu og til að greiða mútur.
Magnitskíj komst að því að Bunicon-Impex SRL, gervifyrirtæki í Chisinau, höfuðborg Moldóvu, væri notað sem milliliður við flutning á hinu mikla fé sem hann fann að stolið hafði verið frá rússneska ríkinu.
Roldugin hefur sagt rússneskum fjölmiðlum að fjármunirnir sem hann hafði undir höndum hafi verið gjafir frá rússneskum fjársýslumönnum og hann hefði notað þá til að kaupa dýr hljóðfæri. Rússneskir embættismenn virðast hins vegar viðurkenna að rússneska ríkið hafi skipulega nota fjárhagstengsl glæpamanna þar á meðal hugsanlega aflandsreikninga Roldugins.
Fyrir nokkru var rætt við Roldugin í rússnesku sjónvarpsstöðinni Vesti Nedelj þar var sagt að rússneskur embættismaður hefði gefið til kynna að net aflandsfélaga hefði hugsanlega verið notað árið 2008 til að koma í veg samsæri á vegum CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, til að kaupa rússneska kapal-sjónvarpsstöð.
Bill Bowder sagði við OCCRP: „Það hefur oft undrað okkur að Pútín virtist sama hvort hann eyðilegði samskipti sín við Vesturlönd með því að styðja og vernda glæpamennina í Magnitskíj-málinu. Þessar nýju upplýsingar skýra margt.“