Home / Fréttir / Rússland: Norðurflotinn greiðir ekki orkureikninga á Kóla-skaga

Rússland: Norðurflotinn greiðir ekki orkureikninga á Kóla-skaga

Heiðursvörður flotans í Severomorsk - orkureikningarnir ógreiddir.
Heiðursvörður flotans í Severomorsk – orkureikningarnir ógreiddir.

Höfuðstöðvar Norðurflota Rússlands eru í bænum Severomorsk á Kóla-skaga skammt fyrir austan landamæri Noregs. Bærinn er lokaður öðrum en hermönnum og fjölskyldum þeirra enda í raun eign varnarmálaráðuneytisins. Íbúarnir eru um 50.000. Nú er svo komið að borgaryfirvöld skulda milljarð rúblna (14,5 m ervrur) í hitunarkostnað. Tæpan helming kostnaðarins má rekja til hitunar á húsum opinberra stofanana.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá orkuveitandanum í héraðinu, Murmanenergosbíjt. Segir fyrirtækið að borgarstjórnin greiði ekki orkureikningana þrátt fyrir að dómari hafi gefið henni fyrirmæli í þá veru.

Í frétt á vefsíðunni BarentsObserver um málið föstudaginn 18. nóvember segir að greiðslufallið verði þrátt fyrir að meira fé en nokkru sinni fyrr streymi til herflotans þar sem unnið er að því að endurnýja Norðurflotann og fjölga skipum í honum.

Jevgeníj Nikora, varalandstjóri Murmansk-héraðs, ræddi nýlega við Aleksandr Novak, orkuráðherra Rússlands, og sagði honum að vaxandi skuldir flota- og herbæjanna hefðu leitt til „alvarlegs ástands“ í héraðinu.

Nikora sagði ráðherranum að engar greiðslur hefðu borist fyrirtækjunum sem samið hafa við varnarmálaráðuneytið um að láta lokuðum bæjum þess í té orku til upphitunar, vatn og rafmagn.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …