Home / Fréttir / Rússland: Norðmaður fær 14 ára dóm fyrir njósnir

Rússland: Norðmaður fær 14 ára dóm fyrir njósnir

Frode Berg
Frode Berg

Norðmaðurinn Frode Berg, fyrrverandi landamæravörður í Kirkenes í Norður-Noregi, hlaut þriðjudaginn 16. apríl 14 ára fangelsisdóm í Moskvu fyrir njósnir. Skal hann vistaður í há-öryggisfangabúðum.

Berg hefur setið 17 mánuði í varðhaldi og styttist fangelsisvist hans um þann tíma. Berg var einnig dæmdur til að greiða 15.000 evru sekt. Berg hefur neitað sök en hann ætlar ekki að áfrýja dómnum.

Réttarhöldin fóru fram fyrir luktum dyrum og dómarinn las aðeins upphafsorð dómsins og niðurstöðu hans. Dómurinn kemur til framkvæmda eftir nokkra daga og þá getur Berg farið fram á náðun.

Ilja Novikov, rússneskur lögfræðingur Bergs, segir að hann muni nú vinna að því að leysa málið með diplómatísku samkomulagi. Náðun yrði að hans mati farsæl niðurstaða málsins. Lögfræðingurinn þakkar stjórn Lefortovo-fangelsisins fyrir að leyfa Berg að deila í 17 mánuði klefa með enskumælandi fanga.

Berg hefur einnig norskan lögmann, Brynjulf Risnes, sem telur að umbjóðandi sinn fái bráðlega að snúa aftur til Noregs. Rússar hafi engan hag af því að Berg sitji mörg ár í rússnesku fangelsi.

Berg var handtekinn 5. desember 2017 í miðborg Moskvu og sætti skömmu síðar ákæru fyrir njósnir gegn Rússum. Hann hefur síðan mátt dúsa í Lefortovo, alræmdu fangelsi rússnesku öryggislögreglunnar, FSB.

Berg játaði að hafa starfað með norsku leyniþjónustunni, hann hefði verið í sendiferðum fyrir hana til Rússlands. Hann var með 3.000 evrur í reiðufé á sér við handtökuna.

 

Heimild: Barents Observer

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …