Home / Fréttir / Rússland: Mannfallið hjá málaliðunum dregur dilk á eftir sér

Rússland: Mannfallið hjá málaliðunum dregur dilk á eftir sér

Talið er að myndin sé tekin í árslok 2016 og sýnir Vladimír Pútín með yfirmönnum Wagner-málaliðasveitarinnar. Dmitrij Utkin, yfirmaður Wagner, lengst til hægri.
Talið er að myndin sé tekin í árslok 2016 og sýnir Vladimír Pútín með yfirmönnum Wagner-málaliðasveitarinnar. Dmitrij Utkin, yfirmaður Wagner, lengst til hægri.

Eftir að fréttir bárust til Rússlands af miklu mannfalli rússneskra málaliða í Sýrlandi aðfaranótt 8. febrúar hefur athygli fjölmiðla þar og annars staðar beinst að liðssveitinni Wagner. Æðsti yfirmaður hennar er Dmitrij Utkin, fyrrv. njósnaforingi. Hann er sagður hrifinn af þýskri hersögu og þess vegna hafi hann kennt liðssveitina við tónskáldið Richard Wagner.

Aðalbækistöð Wagner-sveitarinnar er í Molinko í Krasnodar-héraði í Rússlandi. Þar er einnig að finna liðsmenn njósnastofnunar rússneska hersins, GRU, þar sem Utkin starfaði áður.

Rússneski netmiðillinn Republic segir að í Wagner-sveitinni séu 3.600 sjálfboðaliðar. Það sé vandalaust að fá menn til að gerast liðsmenn en þeir fái 80.000 til 240.000 rúblur laun á mánuði (um 170.000 til 500.000 ísl. kr.).

Fyrir utan Wagner hafa fleiri rússnesk einkafyrirtæki sent málaliða til starfa fyrir rússnesk stjórnvöld í Úkarínu, Mið-Austurlöndum og Afríku.

Liðsmenn Wagners eru búnir nútímavopnum og í Sýrlandi ráða þeir bæði yfir fallbyssum og skriðdrekum.

Republic telur að undanfarin tvö ár hafi reksturinn á Wagner kostað um 17 milljarða rúblna eða tæplega 32 milljarða ísl. kr.

Fjár er aflað hjá „fjárfestum“. Í þeim hópi er Jevgenij Prigozjin, sem kallaður er „kokkur Pútíns“ og kemur einnig við sögu í ákæru sérstaks saksóknara í Rússarannsókninni í Bandaríkjunum. Hann hagnaðist mikið á matseld fyrir rússneska herinn og segir viðskiptamiðillinn RBK að hann hafi selt hernum matvæli fyrir tæpa 120 milljarða ísl. kr.

Talið er að um 100 rússneskir málaliðar hafi fallið við sýrlenska bæinn Deir ez-Zor, skammt frá Efrat-fljóti. Nú segja fréttir að í um eina klukkustund hafi bandaríski flugherinn ráðist á liðsmenn Wagners í nágrenni olíuhreinsunarstöðvar sem þeir reyndu að ná á sitt vald.

Pavel Felgenhauer, sjálfstæður herfræðingur, segir að þetta atvik valdi því að mjög megi efast um gildi málaliðanna fyrir rússnesk stjórnvöld. Þeir hafi ekki haft roð við bandaríska hernum.

Í Moskvublaðinu Novaja Gazeta segir Felgenhauer að afleiðingar atviksins gætu orðið mun alvarlegri ósigur málaliðanna á þessum fjarlæga stað. Ósigurinn veiki baráttuandann alls staðar innan rússneska hersins og veki efasemdir um gildi endurvæðingar hersins sem kostað hafi trilljónir rúblna og almenna getu rússneskra hermanna og herstjórna.

 

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …