Home / Fréttir / Rússland: Herútboð til heimabrúks

Rússland: Herútboð til heimabrúks

Vsevolod Chentsov, sendiherra Úkraínu í Brussel, og Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB.

Það verður að líta á hernaðarógn Rússa gagnvart Úkraínu í því ljósi að rússnesk stjórnvöld vilja draga að sér athygli á heimsvísu til að styrkja stöðu sína á heimavelli segir nýr sendiherra Úkraínustjórnar í Brussel við blaðamann vefsíðunnar EUobserver mánudaginn 20. desember.

„Þeir [Rússar] þurfa örvun á borð við innlimun Krímskaga til að endurhlaða ímynd sína og stilla sér upp eins og þeir sitji við háborð [heimsstjórnmálanna],“ segir Vsevolod Chentsov sendiherra í viðtalinu og vísar til þess þegar Rússar beittu hervaldi til að leggja undir sig Krím árið 2014.

Hann segir að núverandi hættuástand sé algjörlega heimatilbúið af Kremlverjum vegna þess að í raun „ógni enginn Rússum“.

Með kalda-stríðs-tali sínu vilji rússneskir ráðamenn einnig auka álit sitt meðal Vesturveldanna með því að færa klukkuna til baka til þess tíma þegar Rússland var raunverulegt risaveldi.

„Rússar höfða ekki til neinna með „mjúku valdi“  – það sem ber nú hæst varðandi Úkraínu sýnir að Rússar geta aðeins sýnt nágrönnum sínum „hörkulegt vald“, ógnað þeim með hervaldi,“ sagði sendiherrann.

Hann sagði að dytti einhverjum í hug árið 2021 að Úkraína yrði „auðveld bráð“ hefði hann rangt fyrir sér.

„Kremlverjar skilja ekki Úkraínumenn. Þeir halda þá „auðvelda bráð“, að meðal þeirra ríki sterk vinsemd í garð Rússa og að ekki sé til nein þjóðleg vitund í Úkraínu. Afstaða landsmanna er gjörbreytt í samanburði við það sem var árið 2014,“ sagði sendiherrann.

Það stæði ekki steinn yfir steini í málflutningi rússneskra ráðamanna um Úkraínu. Í einu orðinu segðu þeir að hætta væri á stríði vegna áhuga Úkraínumanna á NATO-aðild. Í hinu orðinu segðu þeir að stríð yrði vegna ótta við „þjóðarmorð“ í Austur-Úkraínu.

„Þegar litið er á þessar röksemdir falla þær ekki saman. Hvernig á það að geta gengið upp að einn daginn göngum við í NATO og næsta dag gefum við her okkar fyrirmæli um þjóðarmorð? Í stöðunni er það kaldhæðni örlaganna að Kremlverjar en ekki Vesturveldin þrýsta Úkraínu í átt að NATO,“ sagði Vsevolod Chentsov, sendiherra Úkraínu.

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …