Home / Fréttir / Rússland: Herkvaðning leiðir til þrýstings á landamæri

Rússland: Herkvaðning leiðir til þrýstings á landamæri

Rússneskar konur mótmæla herkvaðningu Pútins.

Um 17.000 rússneskir ríkisborgarar fóru um liðna helgi yfir landamærin til Finnlands segja finnskir landamæraverðir. Að morgni mánudag 26. september var 5 km löng röð bíla við landamærin að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.

Flestir fara um landamærastöðvar í suð-austri það er á leiðinni frá St. Pétursborg. Í liðinni viku fóru 33.444 rússneskir ríkisborgarar yfir landamærin á þessum slóðum sem er 64% aukning frá vikunni á undan.

Þessar tölur eru hlutfallslega lágar miðað við það sem var fyrir COVID-faraldurinn. Margir Rússar fara um Finnland til annarra landa. Sunnudaginn 25. september yfirgáfu 5.068 Rússar Finnland. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist fyrir helgi búast við fjölgun Rússa hér á landi.

Talið er að ferðum Rússa yfir landamærin til Finnlands fjölgi næstu daga. Vladimir Pútin Rússlandsforseti mælti fyrir um takmarkaða herkvaðningu miðvikudaginn 21. september. Margir karlmenn sem fá slíka kvaðningu velja frekar þann kost að yfirgefa Rússland.

Strax og sagt var frá herkvaðningu Pútins bárust fréttir um að ekki væri unnt að kaupa flugferð aðra leiðina frá Rússlandi, öll sæti væri seld. Fyrir utan Finnland hafa langar raðir myndast við landamæri Georgíu og Kazakhastan.

Á síðu rússneska vefblaðsins Meduza segir að innan skamms muni rússnesk yfirvöld loka landamærum sínum til að enginn karl á herskyldu aldri geti yfirgefið landið.

Sænski Rússlandsfræðingurinn Hugo von Essen segir við Aftonbladet að margt bendi til þess að valdakerfi Pútins kunni að hrynja fyrr en seinna.

Dmitrij Peskov, talsmaður Kremlverja, viðurkenndi mánudaginn 26. september að gerð hefðu verið mistök við framkvæmd herkvaðningarinnar. Sagði hann héraðsstjóra vinna hörðum höndum að því að leiðrétta mistökin.

Þegar Peskov var spurður hvort Rússlandsstjórn ætlaði að loka eigin landamærum til að hefta för karla á ákveðnum aldri og setja herlög á nokkrum landamærastöðvum svaraði hann:

„Ég veit ekkert um þetta. Engin ákvörðun hefur verið tekin í dag.“

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …