Home / Fréttir / Rússland: Hagfræðingur skipaður hermálaráðherra

Rússland: Hagfræðingur skipaður hermálaráðherra

Andrei Belousov, nýr varnarmálaráðherra Rússlands.

Vestrænir fréttaskýrendur segja að við fyrstu sýn virðist Andrei Belousov sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti skipaði varnamálaráðherra að kvöldi sunnudagsins 12. maí ekki falla inn í embættið. Hann sé betur þekktur fyrir að túlka excel-skjöl og kynna ríkisafskiptastefnu í efnahagsmálum en að ákveða hvernig beita skuli skriðdrekum eða stórskotaliði.

Til þessa hefur Belousov (65 ára) verið lýst sem færasta og mesta forsjársinnans meðal hagfræðinga Kremlverja. Honum hefur nú verið falið skýrt hlutverk: að sigra í Úkraínu og búa Rússa undir langvinn átök við NATO, segir James Kilner, sérfræðingur The Telegraph í málefnum Rússlands.

Pútin lítur á verkefnið sem kórónuna á forsetaferli sínum og hann vill að kerfiskarl en ekki hermaður færi sér hana.

Sergei Shoigu, fráfarandi varnarmálaráðherra, sætti vaxandi gagnrýni fyrir að hafa ekki betur í átökum við hægfara rússneska stjórnkerfið og tefja þannig fyrir að rússneski herinn skilaði því sem stjórnarherrarnir í Moskvu vildu. Þar að auki hefur varnarmálaráðuneytið á sér mikið spillingarorð.

Pútin hefur neytt rússneska hagkerfið í styrjaldarham. Stríð er nú eðlilegur liður í þjóðarbúskapnum. Hagfræðingur sem ráðherra hermála er staðfesting á þessu gagnvart almenningi, efnahags- og atvinnulífi, segir James Kilner.

Forsetinn sýni nú í verki að hann telji her sinn standa sig vel á vígvellinum í Úkraínu og þess vegna sé tímabært að skipta um menn á æðstu stöðum.

Sergei Shoigu, forveri Belousovs sem varnarmálaráðherra, var líka kallaður til embættisins án þess að vera hermaður. Eftir að hann var skipaður ráðherra árið 2012 gerðist hann jafnframt hershöfðingi og gekk gjarnan í einkennisbúningi, hlaðinn fjölda heiðursmerkja. Talið er að Belousov taki allt öðru vísi á málum en Shoigu.

Í fréttum segir að undanfarið hafi Belousov farið með stjórn drónaverkefna og knúið í gegn áætlanir um að auka smíði þeirra og þjálfa fleiri stjórnendur. Þá er sagt að persónulegt samband hans við Pútin sé gott.

Shoigu var ýtt til hliðar og skipaður í embætti ritara þjóðaröryggisráðs Rússlands sem er valdamikið í rússneska stjórnkerfinu. Hann kemur þar í staðinn fyrir Nikolai Patrushev, 72 ára hauk sem vill meiri átök við NATO.

James Kilner minnir á að yfirmaður rússneska hersins sé áfram þungbúni hershöfðinginn Valeríj Gerasimov. Ekki hefur verið tilkynnt um neina breytingu á stöðu hans þótt hann hafi legið undir mikilli gagnrýni vegna framgöngu rússneska hersins í Úkraínu.

Belousov varð efnahagsmálaráðherra árið 2012, síðan efnahagsráðgjafi Pútins og loks vara-forsætisráðherra. Áður en Belousov komst í raðir Kremlverja var hann sérfræðingur í viðskiptaráðuneytinu og síðan fjármálastjóri forsætisráðuneytisins.

James Kilner segir að átökin í Úkraínu hafi breyst í kyrrstöðustríð sem Pútin telur að hann sigri. Hann hefur gert samninga um vopnakaup við Norður-Kóreu og Íran og breytt verkstæðum í vopnasmiðjur fyrir utan að kalla hundruð þúsjnda frjálsra manna og fanga til vopna.

Á þennan hátt hefur hann náð hergagnaforskoti gagnvart Úkraínumönnum og rússneski herinn þolir að tapa allt að 1.000 mönnum á dag, særðum eða dauðum.

Pútin telur með öðrum orðum að með því að treysta á magn frekar en gæði sigri hann í Úkraínu.

James Kilner segir að fyrir utan þetta hafi Pútin búið sig undir að meiri og víðtækari ögranir gegn NATO en áður allt frá því að hann hóf Úkraínustríðið í febrúar 2022. Það sé verkefni Belousovs að búa Rússa undir átök við NATO.

Á vefsíðunni Politico segir 13. maí að Dimitríj Peskov, talsmaður Kremlverja hafi ekki viljað segja neitt hvað verði um Patrushev, frá því verði skýrt síðar. Sonur hans, Dmitrij Patrushev, hækkaði í tign í rússneska stjórnarráðinu og varð vara-forsætisráðherra í stað þess að hafa verið landbúnaðarráðherra.

Politico vitnar í Philip Ingram, sem starfaði í leyniþjónustu breska hersins og hjá NATO. Hann segir að með því að víkja Shoigu til hliðar og skipa Belousov í hans stað gefist færi á að taka á spillingunni sem ríki í rússneska varnarmálaráðuneytinu.

Grant Shapps, varnarmálaráðherra Breta, vék að brottför Shoigus með þeim orðum að þar hefði farið maður sem hefði gegnt ráðherraembætti þegar Rússar misstu meira en 355.000 hermenn og fjöldamorð hefðu verið framin á almennum borgurum í ólögmætum átökum í Úkraínu.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …