Home / Fréttir / Rússland: Fjórðu innsetningu Pútins í forsetaembættið mótmælt

Rússland: Fjórðu innsetningu Pútins í forsetaembættið mótmælt

 

Lögregla ræðst á mótmælendur í Moskvu.
Lögregla ræðst á mótmælendur í Moskvu.

„Hann er ekki zarinn okkar“ sagði á mótmælaspjöldum sem Rússar gengu með laugardaginn 5. maí til að mótmæla fjórðu innsetningu Vladimírs Pútíns í embætti forseta Rússlands mánudaginn 7. maí. Alexei Navalníj, leiðtogi mótmælanda, var handtekinn ásamt mörgum öðrum.

Alexei Navalníj var látinn laus sunnudaginn 6. maí. Hann er sakaður  um að hafa skipulagt samkomu án leyfis og um að hafa neitað að fara að fyrirmælum lögreglu. Lögfræðingur hans segir að kæran verði tekin fyrir 11. maí.

OVD-Info, hópur sem fylgist með pólitískri kúgun í Rússlandi, sagðist hafa fengið tilkynningar um að meira en 1.000 manns hefðu sætt handtöku um allt Rússland, þar af 500 í Moskvu. Þá sagði hópurinn einnig að kósakkar hliðhollir ráðamönnum í Moskvu hefðu beitt leður-svipum á mótmælendur í höfuðborginni.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sendi frá sér yfirlýsingu laugardaginn 5. maí vegna aðgerða rússneskra yfirvalda. Þar sagði:

„Með því að handtaka í dag meira en eitt þúsund mótmælendur og beita þá ofbeldi hafa rússnesk yfirvöld um land allt ógnað grundvallarréttindum reist á tjáningarfrelsi, félagafrelsi og fundafrelsi í Rússlandi.

Jafnvel þótt ekki hafi alls staðar verið gefið leyfi til mótmælaaðgerða réttlætir það ekki hrottaskap lögreglu og fjöldahandtökur.“

Lögregla handtók Alexei Navalníj í miðborg Moskvu. Leonid Volkov, stjórnmálamaður og stjórnarandstæðingur, sagði: „Navalníj gekk inn á Púskin-torg og var nær samstundis handtekinn. Þetta var með öllu ólögleg handtaka.“

Navalníj var bannað að taka þátt í forsetakosningunum í mars. Hann hvatti til þess að fólk léti Pútin finna fyrir andúð sinni í tilefni af fjórðu innsetningu hans í embætti.

„Gamli, huglausi Pútin heldur að hann sé zar,“ sagði Navalníj á Twitter fyrir mótmælaaðgerðirnar. „Hann er þó ekki okkar zar.“

Yfirvöld neituðu um leyfi til aðgerðanna. Þeirra var hvergi getið fyrirfram í ríkisfjölmiðlum og reynt að þagga þær niður af opinberri hálfu að þeim loknum. Þátttakan í þeim sýndi hins vegar að net mótmælenda er víðtækt og laðar að sér drjúgan fjölda fólks.

Dmitrí Nikitenko, mótmælandi í Moskvu, sagði: „Ég tel Pútín ekki verðugan leiðtoga landsins. Hann hefur leitt það í 18 ár án þess að láta nokkuð gott af sér leiða. Hann ætti að fara, alfarinn.“

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hvöttu rússnesk stjórnvöld til að beita ekki hörku gegn mótmælendum. Leyfa ætti friðsamleg mótmæli.

„Rússnesk yfirvöld ættu að læra af fyrri mistökum sínum, þau hafa hvað eftir annað hafnað tilmælum um leyfi fyrir mótmælaaðgerðum, þvert á mannréttindareglur,“ sagði Denis Krivosheev, aðstoðarforstjóri Amnesty í Austur-Evrópu og Mið-Asíu.

Í aðdraganda þess að Pútín var kjörinn forseti í þriðja sinn árið 2012 kom til einhverra mestu mótmæla í Rússlandi frá hruni Sovétríkjanna. Þá greip rússneska öryggislögreglan til hörkulegra gagnaðgerða og hundruð manna voru fangelsaðir.

Nýtt sex ára kjörtímabil Pútíns sem forseta hefst formlega með innsetningunni í Kreml mánudaginn 7. maí. Hann var kjörinn með 77% atkvæða í mars. Sitji Pútín út kjörtímabilið hefur hann setið við völd lengur en nokkur annar í nútímasögu Rússlands en Jósef Stalín.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …