Home / Fréttir / Rússland: Áróðursstjarna snýst gegn Pútin í sjónvarpsþætti

Rússland: Áróðursstjarna snýst gegn Pútin í sjónvarpsþætti

Margrarita Simonjan, stjórnandi rússneska ríkissjónvarpsins RT.

Margrarita Simonjan, stjórnandi rússneska ríkissjónvarpsins RT, sagðist „uppnumin af hrifingu“ þegar Vladimir Pútin sendi rússneska herinn inn í Úkraínu í febrúar 2022. Nú vill hún að hernaður Rússa verði stöðvaður vegna þess að Úkraínuher hafi fullkomnustu vopn Vesturlanda í höndunum.

Frá þessu er skýrt á bresku vefsíðunni Telegraph fimmtudaginn 8. júní. Þykir fréttnæmt að Margarita Simonjan, sem hefur hvað eftir annað hvatt til allsherjarátaka við Úkraínumenn, snúi nú við blaðinu og hvetji til samninga og að hlé verði gert á átökum þar til að niðurstöður liggi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu íbúa á svæðum í Úkraínu sem Rússar hafi hernumið.

Færði hún þau rök fyrir umpólun sinni að Úkraínumenn hefðu nú aðgang að vopnum frá NATO sem beitt væri á rússnesku landi og í gagnsókn gegn Rússum.

„Ég hef talað um þetta allt árið. Það væri sannarlega gott að stöðva blóðbaðið tafarlaust, halda stöðunni sem við höfum náð, frysta hana og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði hún á besta útsendingartíma í Rossija 1 í þætti hjá Vladimir Solovjev, áróðursmanni Kremlverja.

„Þurfum við landsvæði þar sem fólk vill ekki búa með okkur? Ég er ekki viss,“ sagði hún.

Það fór fyrir brjóstið á mörgum að hún talaði um „umdeild svæði“ þegar hún vék að þeim svæðum í Úkraínu sem Rússar segja á valdi sínu. Sumir háværustu talsmenn yfirráðastefnu Rússa sökuðu hana um að koma í bakið á Vladimir Pútin sem hefði „opinberlega“ viðurkennt hernumdu svæði sem hluta af Rússlandi í fyrra.

„Hefur Simonjan fengið nýjan yfirmann? Hver borgar henni? Þjóðaratkvæðagreiðsla á rússneskum landsvæðum sem hún segir „umdeild“ gæti verið guðsgjöf til þeirra sem móta stefnu Vesturlanda,“ sagði Roman Alekhin, sjálfboðaliði í her Rússa og rithöfundur, í pistli fyrir Tsargrad TV miðvikudaginn 7. júní.

Minna þekktir bloggarar sem styðja stríðið kröfðust þess að hún segði af sér. Igor Girkin, fyrrverandi foringi aðskilnaðarsinna í Úkraínu, sakaði Simonjan, sem er frá Armeníu, um að hafa fyrst brugðist þjóðarhagsmunum Armena með því að styðja samkomulag milli Azerbaijdsan og Armeníu í deilu landanna og nú ætlaði hún að leika sama leik gagnvart Rússum: „Við munum huga að því sem er best fyrir Rússa og Rússland án þín.“

Telegraph segir að þessi ummæli innvígðs félaga í pólitískri valdastétt Rússlands endurspegli viðhorf sumra innan þess hóps án þess að við því sé að búast að Moskvumenn leggi niður vopn hér og nú.

Til þessa hefur verið litið á Simonjan sem eina helstu málpípu þeirra sem vilja að Rússar innlimi austurhluta Úkraínu. Hún krafðist þess mörgum mánuðum áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Nokkrum vikum áður en stríðið hófst sótti hún fast að Sergei Lavrov utanríkisráðherra. „Hvenær ætlum við að lemja á þeim í Washington?“ spurði hún.

Þegar þrengdi að rússneska hernum og hann gat sig hvergi hreyft sagðist Simonjan ekki sjá að Rússar gætu „bara gefist upp og farið“, þeir ættu enn kjarnorkuvopn uppi í erminni.

Ekki er langt síðan Simonjan sagði að hvorki hún né nokkur annar í valdastétt Rússlands hefði „ánægju af“ að kasta sprengjum á borgir og bæi í Úkraínu, það væri hins vegar óhjákvæmilegt til að fella stjórnina í Kyív.

Þegar rússnesk stýriflaug sprakk í úkraínska bænum Vinnjitsia sumarið 2022 og grandaði ungri móður og dóttur hennar fullyrti Simonjan að Rússar beittu vopnum sínum aðeins gegn „Nazistum“.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …