Home / Fréttir / Rússland á leið frá réttarríkinu með reglum um ríkisleyndarmál

Rússland á leið frá réttarríkinu með reglum um ríkisleyndarmál

 

 

 

 

 

 

Mótmæli gegn Pútín
Mótmæli gegn Pútín

Nýjar reglur í Rússlandi um að nöfn fallinna í orrustu skuli skoða sem ríkisleyndarmál kunna að hafa alvarleg áhrif á málfrelsi og mannréttindi í Rússlandi sagði Sergeij Krivenko, rússneskur mannréttindafrömuður, við þýsku fréttastofuna DW föstudaginn 29. maí.

Nöfn allra sem falla í aðgerðum sérsveita Rússa á friðartímum ber að skoða sem ríkisleyndarmál segir í opinberri yfirlýsingu sem Vladimir Pútín Rússlandsforseti birti fimmtudaginn 28. maí. Áður hafði þessi regla aðeins gilt um þá hermenn sem féllu í valinn á stríðstímum. Þeir sem brjóta gegn reglum um ríkisleyndarmál í Rússlandi má dæma í allt að sjö ára fangelsi.

Dmitrij Peskov, talsmaður Pútíns, neitaði á blaðamannafundi að líta bæri á nýju reglurnar í tengslum við átökin í  austurhluta Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld hafa staðfastlega neitað að menn á þeirra vegum eigi þar hlut að máli.

Baráttumenn í þágu mannréttinda í Rússlandi óttast að nýju reglurnar takmarki enn frekar leiðir þeirra til að miðla upplýsingum um hugsanlega aðild Rússa að því sem gerist í Úkraínu. Þeir segja að orðalag yfirlýsingar forsetans kunni að verða túlkað á þann veg að sótt verði gegn blaðamönnum og öðrum rannsakendum.

DW ræddi við Sergeij Krivenko sem situr í Mannréttindaráði Rússlands. Hann sagði þetta skref rökrétt frá sjónarmiði rússneskra stjórnvalda, þar sem þau neiti alfarið að rússneskir hermenn séu í Úkraínu neiti þau einnig að staðfesta að þar hafi orðið mannfall í liði Rússa.

Nú geti varnarmálaráðuneytið alfarið neitað að svara spurningum blaðamanna um þetta efni með vísan til reglna um ríkisleyndarmál.

Krivenko bendir á að lögum samkvæmt megi ekki beita reglum um ríkisleyndarmál til að hylma yfir mannréttindabrot. Rússneskum yfirvöldum sé skylt að eigin lögum og alþjóðalögum að rannsaka allar aðstæður og ástæður þess að hermaður týnir lífi – mannréttindasamtökin muni krefjast þess að þessa réttar hermanna sé gætt.

DW minnir á að þessi nýja regla sé sett eftir að samþykkt hafi verið lög um „erlenda útsendara“ og síðar um „óæskileg samtök“ og spyr Krivenko hvað þetta þýði fyrir Rússa.

Hann segir að þetta sýni að undanfarin tvö ár hafi endanlega verið snúið af braut réttarríkis í Rússlandi. Hið óljósa orðalag sem finna megi í öllum þessum lagatextum sé til marks um það. Við þetta bætist síðan innlimun Krímskaga sem brjóti gegn alþjóðalögum.

Hann segir ástandið mjög alvarlegt og engar líkur séu á að það batni. Hvað sem því líði geti Mannréttindaráðið enn þann dag í dag andmælt öllum þessum lögum opinberlega og muni leggja til að stjórnvöld afnemi þau.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …