
Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Óhætt er að segja að sigur Donalds Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 hafi komið flestum á óvart. Hvernig gat jafn ógeðfelldur maður sem jafnframt hafði takmarkaða þekkingu á málunum sem kosningabaráttan snérist um sigrað jafn reynslumikinn frambjóðenda og Hillary Clinton? Fljótlega fóru raddir að heyrast sem sögðu að brögð hefðu verið í tafli. Þeir sem eru á þessari skoðun saka Rússa um að hafa staðið á bak við kosningasvindl og spyrja sig nú hvernig þeir hafi farið að því og hvort að Trump hafi verið með í ráðum.
Fjallað er um þessa sögu í bókinni Russian Roulette sem kom út fyrir stuttu. Hún er eftir rannsóknarblaðamanninn Michael Isikoff og David Corn blaðamann hjá tímaritinu Mother Jones. Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Twelve (í Bandaríkjunum) og er 352 síður að lengd. Í henni er málið skoðað út frá fjórum sjónarhornum. Í fyrsta lagi er sjónum beint að tengslum Trump við Rússland. Svo er skýrt hvers vegna Rússar vildu hafa áhrif á kosningabaráttuna og hvaða aðferðum þeir beittu til þess. Þar næst er farið yfir viðbrögð bandarískra stjórnvalda við árásum Rússa og að lokum er fjallað um hvernig fjölmiðlar vestanhafs brugðust við þeim. Sagan sem rakin er í bókinni verður nú kynnt í stuttu máli. Hafa þarf í huga að hluti hennar átti sér stað bak við luktar dyr og því er sumt af því sem kemur þar fram getgátur.
Russian Roulette hefst á atburðum sem áttu sér stað nokkrum árum fyrir forsetakosningarnar 2016. Í desember 2011 voru þingkosningar haldnar í Rússlandi. Fréttir bárust af víðtæku kosningasvindli og í kjölfarið brutust út mikil mótmæli. Vladimir Pútin, sem þá var forsætisráðherra Rússlands, mislíkaði þessar aðgerðir meðal annars vegna þess að hann taldi að bandarísk stjórnvöld, með Hillary Clinton utanríkisráðherra í broddi fylkingar, hefðu tekið þátt í að skipuleggja þær. Nokkrum misserum síðar brutust út mótmæli í Kænugarði gegn spilltum stjórnvöldum Úkraínu og aftur var Pútin viss um að Bandaríkjamenn hefðu átt hlut að máli. Ótti stjórnvalda í Rússlandi við að Bandaríkin væru að vega að þeim átti að mati höfunda Russian Roulette stóran þátt í því að Kremlverjar ákváðu að grafa undan bandarískum stjórnvöldum með því að ala á sundrung meðal landsmanna. Lykilþáttur í þeirri áætlun var að reyna að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar árið 2016.
En hvernig skyldi farið að því? Með því að púsla saman nokkrum vísbendingum er hægt að ráða í áform Rússa. Í febrúar 2013 skrifaði einn æðsti yfirmaður [chief of staff] rússneska heraflans, Valery Gerasimov, grein þar sem hann hvatti til þess að herinn aðlagaði sig að nútímanum. Nú þegar heimurinn væri orðinn netvæddur gætu Rússar nýtt sér hina nýju tækni til þess að hafa áhrif á almenningsálit í öðrum ríkjum sér í hag. Benti Gerasimov á arabíska vorið sem sönnun þess að samfélagsmiðlar gætu haft mikil áhrif.
Hugmyndir Gerasimovs voru ekki orðin tóm líkt og kom í ljós þegar fréttamaður fletti árið 2014 ofan af fyrirtækinu Internet Research Agency (IRA) í Pétursborg. Þá kom í ljós að bak við sakleysislegt nafnið leyndist fyrirtæki sem fékkst við að dreifa fölskum fréttum á samfélagsmiðlum. Ýmsar aðgerðir IRA hafa verið afhjúpaðar og var fyrirtækið m.a. staðið að því að reyna að grafa undan forsetaframboði Hillary Clinton með því að dreifa ósönnum upplýsingum um hana á Facebook og Twitter. Eignarhald á fyrirtækinu hefur verið rakið til Jevgenís Prigozhins sem er náinn samstarfsmaður Pútíns og hefur puttana í ýmsu misjöfnu.
Rússar létu líka til sín taka með öðrum hætti á netinu. Þannig hafa tveir hópar hakkara sem brutust inn í netkerfi demókrataflokksins og forsetaframboð Hillary Clinton (Cozy Bear og Fancy Bear hóparnir) verið bendlaðir við Rússland og hakkarinn Guccifer 2.0 sem var sá sem byrjaði að dreifa stolnu gögnunum frá demókrötum hefur líka verið tengdur til Rússa.
Ný hernaðarstefna Rússa og netárásir þeirra hafa ekki vakið mikla athygli. Sömu sögu er ekki að segja um aðra aðferð sem Rússar eiga að hafa beitt í kosningahernaði sínum enda er hún mjög umdeild. Hér er vísað í hvort Rússar hafi verið í tengslum við forsetaframbjóðanda repúblikana Donald Trump. Rannsókn á þessum tengslum stendur yfir í Bandaríkjunum og er ekkert hægt að fullyrða um hvað kemur út úr henni. Greinilegt er hins vegar að höfundar Russian Roulette búast ekki við jákvæðri niðurstöðu fyrir Trump og færa þeir ýmis rök fyrir máli sínu. Þannig hafði Trump lengi viljað eiga viðskipti við Rússa. Hann hafði til að mynda haldið fegurðarsamkeppni þar (Miss Universe 2013) og lengi leitað leiða til þess að komast inn á rússneska fasteignamarkaðinn. Í þessari vegferð hafði Trump komist í kynni við ýmsa (vafasama) athafnamenn sem voru í tengslum við stjórnvöld í Kreml. Fulltrúar forsetaframboðs Trumps höfðu líka brugðist vel við þegar rússneskir aðilar sögðust hafa undir höndum gögn sem myndu skaða framboð Hillary Clinton og buðu þeim á fund í Trump turninum í New York í júní 2016. Ekki styrkir heldur málstað Trump að ýmsir aðilar sem voru nátengdir stjórn hans, s.s. Paul Manaford sem var kosningastjóri hans og Michael Flynn fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forsetans hafa verið staðnir að lygum um samskipti sín við Rússa. Að lokum velta höfundarnir fyrir sér þeim möguleika að Trump starfi ekki sjálfviljugur með Rússum. Þar eru þeir að vísa í umdeilda skýrslu frá fyrrverandi starfsmanni bresku leyniþjónustunnar en í henni kemur fram að Rússar hafi undir höndum upptöku af Trump sem myndi koma honum mjög illa og þeir noti hana til þess að kúga hann.
Af því sem hér hefur komið fram má ráða að afskipti Rússa af bandarískum stjórnmálum hafi verið æði umfangsmikil á síðustu árum. Þá vaknar sú spurning hvort Bandaríkjamenn hafi ekki haft hugmynd um fyrirætlanir Rússa. Svarið við því er að bæði höfðu nokkrir innan bandarísku stjórnsýslunnar áttað sig á því hvað var á seyði og einnig hafði yfirvöldum í Washington borist upplýsingar frá háttsettum aðila innan Kremlarmúra um að þar væru í undirbúningi umfangsmiklar aðgerðir sem ætlað væri að grafa undan lýðræðisskipulagi Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja. Hægt var brugðist við þessum viðvörunum. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Þannig var upplýsingagjöf ábótavant innan bandaríska stjórnkerfisins og því rötuðu viðvaranirnar ekki alltaf rétta leið. Ekki bætti úr skák að þegar þær komust í réttar hendur áttu menn erfitt með að trúa því að Rússar myndu hegða sér með þessum hætti. Starfsmenn forsetans í Hvíta húsinu fréttu að lokum af því hvað væri í uppsiglingu en stjórn Obama var sein að viðurkenna vandann ekki síst vegna þess að henni var mjög umhugað um að halda góðu sambandi við Moskvu. Þetta gerði það m.a. að verkum að gagnaðgerðir stjórnvalda gegn Rússum voru frekar máttlausar.
Að sama skapi voru fjölmiðlar seinir að átta sig á alvarleika málsins jafnvel eftir að þeim fóru að berast ábendingar um að eitthvað væri á seyði og fjölluðu þeir lítið um málið fyrir forsetakosningarnar 2016. Áhugi þeirra á afskiptum Rússa vaknaði hins vegar eftir að Trump vann og hefur hann aukist eftir því sem meiri upplýsingar hafa komið fram í dagsljósið um afskipti Rússa af kosningunum og nú er svo komið að um fátt annað er talað meðal þeirra sem hafa áhuga á bandarískum stjórnmálum. Þessi saga er orðin löng og flókin og því er bókin Russian Roulette mikilvæg heimild fyrir þá sem langar að átta sig á hina meinta samsæri því þar er farið yfir atburðarás síðustu ára með skýrum hætti.