Home / Fréttir / Rússi líklega stjórnarformaður Interpol

Rússi líklega stjórnarformaður Interpol

Aleksander Prokuptsjuk
Aleksander Prokuptsjuk

Líklegt er að Rússinn Aleksander Prokuptsjuk verði kjörinn stjórnarformaður alþjóðalögreglunnar Interpol á fundi samtakanna í Dubai miðvikudaginn 21. nóvember.

Þverpólitískur hópur öldungadeildarþingmanna hefur líkt framboði hans og hugsanlegu kjöri við að minkur sé sendur í hæsnabú. Stjórn Úkraínu hefur boðað úrsögn úr Interpol nái Aleksander Prokuptsjuk kjöri.

Bandaríski þingmannahópurinn segir að Rússar séu kunnir fyrir að misnota Interpol gegn þeim sem stjórnvöld líta á sem pólitíska andstæðinga sína, einnig gegn andófsmönnum og blaðamönnum.

Í leiðara The Washington Post þriðjudaginn 20. nóvember er Rússanum líkt við „óargadýri við dyragættina“. Varað er við því að nái hann gjöri beiti hann áhrifum sínum til að bregða fæti fyrir umbætur innan Interpol sem ætlað er að útiloka að einræðisstjórnir nýti sér handtökuheimildir á vegum Interpol til að koma böndum á andófsmenn.

Bill Browder, höfundur bókarinnar Eftirlýstur, hefur árum saman verið á handtökulista Interpol að kröfu Rússa. Hann berst fyrir því að þeim verði refsað í Rússlandi sem hann segir að hafi myrt lögfræðing sinn.

Fréttaskýrendur benda á að þegar hafi verið vegið að trúverðugleika Interpol eftir að stofnunin lét sér nægja að veita viðtöku afsagnarbréfi frá Kínverjanum Meng Hongwei, þáv. stjórnarformanni, eftir að hann var tekinn fastur í Kína. Hann var greinilega neyddur til að segja af sér en af hálfu Interpol var ekkert gert til að rannsaka hvers vegna hann var allt í einu handtekinn án dóms og laga á ferð til heimalands síns.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …