Home / Fréttir / Rússasamruna mótmælt í fimmta sinn í Minsk

Rússasamruna mótmælt í fimmta sinn í Minsk

Frá Minsk-mótmælunum 29. desember 2019.
Frá Minsk-mótmælunum 29. desember 2019.

Um 100 manns tóku þátt í mótmælum sunnudaginn 29. desember í miðborg Minsk, höfuðborgar Hvíta Rússlands. Vildi fólkið lýsa andstöðu sinni við að tengsl Hvíta Rússlands og Rússlands yrðu aukin. Voru þetta fimmtu opinberu mótmælin af þessu tagi á einum mánuði.

Um hádegisbil gekk fólkið frá Októbertorgi að Sjálfstæðistorginu og myndaði síðan keðju með því að haldast í hendur skammt frá höfuðpósthúsi borgarinnar.

Einkennisklæddir lögreglumenn fylgdust með mótmælunum en héldu sig til hlés. Í fyrri mótmælum voru margir handteknir. Talið er að allt 1.000 manns hafi tekið þátt í fyrri aðgerðum mótmælenda.

Fólkið kemur saman án leyfis yfirvalda en litið er á Hvíta Rússland sem síðasta vígi stjórnarháttanna í Sovétríkjunum á sínum tíma.

Um þessar mundir eru 20 ár frá því að ráðamenn Rússlands og Hvíta Rússlands gerðu með sér samning sem átti að leiða til ríkjasameiningar. Það hefur ekki gengið eftir og viðræður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta og Aljaksandrs Lukashenka, forseta Hvíta Rússlands, á árinu 2019 hafa ekki skilað neinum árangri.

Eftir að hlé var gert á viðræðunum vegna ágreinings sagði Lukashenka að eina sem hann vildi væri að „njóta jafnra réttinda“ í gagnkvæmum samskiptum ríkjanna.

Efnahagur Hvíta Rússlands ræðst af ódýrri rússneskri olíu og milljarða fjárframlagi frá Rússum. Pútin vill herða á hernaðarlegum og efnahagslegum samruna ríkjanna.

Innlimun Rússa á Krímskaga og stuðningur þeirra við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu hafa kvekkt Lukashenka og orðið til þess að stjórn hans leitast við að minnka rússnesk ítök í stjórnkerfi Hvíta Rússlands.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …