Home / Fréttir / Rússarannsakendur nálgast innsta hring Trumps

Rússarannsakendur nálgast innsta hring Trumps

Hope Hicks, ráðgjafi Trumps og upplýsingastjóri Hvíta hússins.
Hope Hicks, ráðgjafi Trumps og upplýsingastjóri Hvíta hússins.

Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, er sakaður um að standa ekki við loforð sitt um að skýra frá öllu sem varðar samskipti hans við útsendara Rússa í bandarísku forsetakosningabaráttunni árið 2016. Hann hafi meðal annars sent gögn tengda málinu til Hope Hicks, nánasta samstarfsmanns Trumps til margra ára og upplýsingastjóra hans sem forseta.

Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings biður nú lögfræðing hans að leggja fyrir nefndina fleiri tölvubréf en til þessa. Nefndarmenn segjast hafa vitneskju um tilvist þessara bréfa, þar á meðal eitt sem snýst um hvernig opna megi bakdyr til að eiga aðgang að Rússum.

Í bandaríska tímaritinu The Atlantic var fyrr í vikunni skýrt frá því að sonur forsetans hefði rætt við Wikileaks meðal annars um aðstoð við að dreifa lekum þaðan og um að draga úrslit kosninganna í efa. Þar segir einnig að Kushner hafi framsent frásögn af þessu til Hope Hicks (29 ára), aðstoðarkonu Trumps sem er nú upplýsingastjóri forsetaembættisins.

Nú segja bandarískir fjölmiðlar að sérstakur saksóknari vegna Rússatengslanna, Robert Mueller, og menn hans búi sig undir að ræða við Hicks sem hefur starfað í tengslum við Trump frá árinu 2012 og setið ýmsa mikilvæga fundi sem tengjast rannsókninni.

Þá er einnig sagt að Hope Hicks verði líklega fús til viðræðna við rannsakendur. Hún hafi þegar ráðið sér til aðstoðar frægan lögfræðing, Robert Trout, sem hafi mikla reynslu af því að takast á við rannsóknir sem tengjast ráðamönnum í Washington.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …