Home / Fréttir / Rússar yggla sig gagnvart Moldóvu

Rússar yggla sig gagnvart Moldóvu

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir að margt bendi til þess að Kremlverjar búi sig undir sambærilegar aðgerðir gegn Moldóvu og í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu.

Hugveitan segir að aðferðunum sem ráðamenn í Moskvu nota sé „líklega“ ætlað að „skapa skilyrði til að réttlæta frekari stigmögnun Rússa gegn Moldóvu í framtíðinni“.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, ræddi deiluna um Transnistriu [hluta Moldóvu undir hernámi Rússa] miðvikudaginn 14. febrúar og hafði uppi ásakanir sem endurspegluðu það sem sagt var gegn Úkraínu áður en Rússar innlimuðu Krímskaga og stofnuðu síðar til alhliða innrásar.

Hann fullyrti meðal annars samsæriskenningu um að Bandaríkin og ESB hefðu ríkisstjórn Moldóvu í hendi sér. Hann hélt því einnig fram að um 200.000 rússneskir ríkisborgarar væru í Transnistriu og rússneskum stjórnvöldum stæði „ekki á sama um örlög þeirra“ og þau mundu „ekki leyfa að þeir yrðu fórnarlömb í öðru ævintýri Vesturlanda“.

ISW bendir á að Kremlverjar segist vera að vernda „samlanda sína erlendis“ þegar þeir réttlæta rússneska hernámið í Transnistriu frá 1992, sömu rök noti þeir um hernað sinn í Úkraínu.

Þá segir hugveitan óljóst hvenær Rússar kunni að grípa til fjölþátta aðgerða í Moldóvu en með yfirlýsingum nú sé búið í haginn fyrir að það geti gerst bráðlega.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …