
Rússneski herinn hefur ekki farið leynt með nýjan og nútímalegan vopnabúnað sinn við norðurlandamæri Rússlands og þar á meðal á Norður-Íshafi segir í grein eftir Atle Staalsen á vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 20. september.
Skotið hefur verið stýriflaugum frá afskekktri rússneskri herstöð í Kotelníj á sama tíma og Rússar efna til Zapad-2017 heræfingarinnar fyrir botni Eystrasalts og stóræfingar á Barentshafi og Kóla-skaga.
Kotelnij er á Nýju-Síberíueyju undan norðurströnd Rússlands. Mánudaginn 18. september efndu hermenn á eyjunni til æfingar sem snerist um að verja hana fyrir óvinaliði, segir í tilkynningu frá rússneska Norðurflotanum. Hermennirnir vörðust bæði með stórskotaliði og stýriflaugum. Skotið var tveimur stýriflaugum að SS-N-2 Styx-gerð gegn skotmörkum í Laptev-hafi. Skotmörkin voru 50 km frá skotpöllunum.
Tundurspillirinn Severomorsk í Norðurflotanum tók þátt í æfingunni. Frá honum var skotið loftvarnaflaugum og fallbyssum skipsins var einnig beitt.

Til æfingarinnar er efnt um sömu mundir og lögð er lokahönd á stöð Norðurflotans á Kotelníj sem er ein af nýjum og endurgerðum herstöðvum Rússa við Norður-Íshaf. Í Kotelníj-stöðinni er Temp-flugvöllur og stór mannvirki sem verða að fullu nothæf á þessu ári.
Fyrir utan Kotelníj má finna endurgerðar herstöðvar í Rogastjevo á Novaja Zemlja, Aleksandra-eyju á Franz Josef Land, Sredníj-eyju á Severnaja Zemlja, Wrangel-eyju og Schmidt-höfða.
Rússar segja herstöðvarnar nauðsynlegar til að verja aukna atvinnustarfsemi á svæðinu og Norðurleiðina, siglingaleiðina milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland.