Home / Fréttir / Rússar vilja einkaviðræður við Bandaríkjamenn um óskalista í öryggismálum

Rússar vilja einkaviðræður við Bandaríkjamenn um óskalista í öryggismálum

Rússneska utanríkisráðuneytið vill að fulltrúar Bandaríkjanna og NATO setjist til viðræðna með það fyrir augum að lögbundið samkomulag takist um ýmis ágreiningsmál. Sérfræðingar telja að verði fallist á samningsmarkmið Rússa gjörbreytist skipan öryggismála í Evrópu.

Óskalistinn var birtur föstudaginn 17. desember og þar er að finna kröfur um að NATO stækki ekki meira til austurs og að hernaðarumsvif á vegum NATO minnki í austurhluta Evrópu.

Listinn hefur verið kynntur bæði í Washington og aðildarríkjum NATO. Af hálfu rússneskra ráðamanna er þó lögð höfuðáhersla á tvíhliða viðræður við fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Í Washington segjast menn þó ekki ræða við Rússa án bandamanna sinna og samstarfsþjóða í Evrópu en í hópi þeirra þjóða eru Úkraínumenn og Georgíumenn.

Háttsetttur bandarískur embættismaður sagði sumar tillögur Rússa „óásættanlegar“ og þetta „vissu“ Rússar. Aðrar tillögur þeirra væru „þess virði“ að ræða þær.

Á vefsíðu RFE/RL er haft eftir William Courtney, fyrrverandi embættismanni í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem tók á sínum tíma þátt í varnarmálaviðræðum Bandaríkjamanna og Sovétmanna, að í rússnesku tillögunum felist viðleitni til að „formbinda áhrifasvæði“ en hvorki í Bandaríkjunum né Evrópu væri vilji til þess.

Hann sagði ekki unnt að líta á þetta sem „alvöru tillögu“. Hún kunni að vera sett fram til að henni verði hafnað og Rússar fái þá enn eina átyllu til að ráðast inn í Úkraínu.

Nú eru um 100.000 rússneskir hermenn við landamæri Úkraínu og hefur Bandaríkjastjórn sagt að liðsafnaðurinn kunni að vera undanfari innrásar. Rússar segja að þeir dragi þá „rauðu línu“ að Úkraína verði ekki aðildarríki NATO.

Bandaríkjastjórn ritaði undir samstarfssamning um varnarmál við Úkraínustjórn í nóvember 2021. Bandaríkjamenn leggja Úkraínumönnum lið við herþjálfun, þá er unnið að endurbótum á höfnum Úkraínu við Svartahaf svo að bandarísk herskip geti athafnað sig þar auk þess sem fjárstuðningur Bandaríkjastjórnar til varna Úkraínu nemur árlega hundruðum milljónum dollara.

Sergeij Rjabkov, varautanríkisráðherra Rússlands, sagði við rússnesku TASS-fréttastofuna laugardaginn 18. desember að Rússar vildu að um einkaviðræður þeirra og Bandaríkjamanna yrði að ræða, settust fleiri að borðinu yrði það aðeins til trafala.

Því hefur hvað eftir verið hafnað af NATO-ríkjunum að Rússar fái neitunarvald um frekari stækkun NATO. Bent er á að um það gildi reglur sem NATO-ríkin setja og vilji þeirra þjóða sem sækja um aðild að bandalaginu. Rússar eigi ekki aðild að NATO og komi þess vegna ekki að neinum ákvörðunum um innri málefni þess.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …