
Bandarískir embættismenn hafa sagt Bernie Sanders, öldungadeildarþingmanni og frambjóðanda í prófkjöri um forsetaefni bandarískra demókrata, að Rússar leggi honum lið í baráttu hans innan Demókrataflokksins. Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti og bandarískir þingmenn einnig verið upplýstir um stuðning Rússa við Sanders. Frá þessu er skýrt í The Washington Post föstudaginn 21. febrúar. Blaðið nafngreinir ekki heimildarmenn sína.
Frá því hefur ekki verið skýrt í hverju stuðningur Rússa felst. Árið 2016 komust bandarískir saksóknarar að því að Rússar styddu Sanders í prófkjörsbaráttu hans þá við Hillary Clinton. Töldu þeir þetta lið í almennri andstöðu Rússa við Clinton, þeir vildu stuðla að sundrung meðal bandarískra kjósenda og vinna að kjöri Donalds Trumps.
„Satt að segja er mér sama hvern [Vladimir] Pútin [Rússlandsforseti] vill sem forseta,“ sagði Sanders í yfirlýsingu. „Orðsending mín til Pútins er skýr: Haltu þér frá bandarískum kosningum og sem forseti mun ég tryggja að þú gerir það.
Árið 2016 notuðu Rússar netáróður til að sundra þjóð okkar og mér skilst að þeir endurtaki leikinn 2020. Sumt af því versta á netinu og sagt er tengjast baráttu okkar kann ef til vill að koma frá öðrum en raunverulegum stuðningsmönnum.“
Fyrir nokkrum dögum skýrðu háttsettir leyniþjónustumenn bandarískum þingmönnum frá því að Rússar vildu að Trump yrði endurkjörinn. Þeir teldu stjórn hans heppilegri en annarra vegna hagsmuna rússneskra stjórnvalda.
Þetta kom fram á leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar og jafnframt að Sanders hefði verið skýrt frá íhlutun Rússa. Kæmi til þess að Rússar ættu sér tvo óskaframbjóðendur úr tveimur ólíkum bandarískum stjórnmálaflokkum fengju þeir tækifæri til að draga almennt úr tiltrú á lögmæti bandarískra kosninga og ýta undir sundrung meðal Bandaríkjamanna að mati leyniþjónustumannanna.
Á kjósendafundi í Nevada-ríki föstudaginn 21. febrúar sagði Trump að það væru „upplýsingafalsanir“ að Pútin vildi aðstoða sig. „Vill hann ekki frekar Bernie sem fór í brúðkaupsferð til Moskvu?“ spurði Trump og vísaði til ferða Sanders til Sovétríkjanna á árum áður.
Eftir að The Washington Post birti frétt sína föstudaginn 21. febrúar sagðist Sanders hafa verið upplýstur um málið „fyrir um mánuði“. Þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði sagt frá vitneskju sinni um þetta svaraði Sanders: „Vegna þess að mér er skýrt frá mörgum trúnaðarmálum án þess að ég segi frá þeim opinberlega.“
Donald Trump reiddist við að leyniþjónustan teldi að Rússar héldu með sér í kosningabaráttunni. Varð þetta til þess að hann réðst harðlega á Joseph Maguire, flotaforingja, sem þá var settur leyniþjónustustjóri innan bandaríska stjórnkerfisins. Sakaði forsetinn Maguire og menn hans um að leggja vopn gegn sér í hendur demókrata.
Miðvikudaginn 19. febrúar rak Trump Maguire og setti Richard Grenell, fyrrv. sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi, í hans stað. Það er ígildi ráðherra að vera leyniþjónustustjóri í Bandaríkjunum. Hlutverk hans er að samhæfa störf leyniþjónustunnar CIA og annarra sambærilegra njósnastofnana innan bandaríska stjórnkerfisins.