
Rússar hafa sent svo mikið af herliði og vopnum – þar á meðal eldflaugar sem geta borið kjarnorkusprengjur – inn á landskika sinn við Eystrasalt milli Litháens og Póllands, Kaliningrad (Königsberg) að varla finnst meiri vígbúnaður á einum stað í Evrópu um þessar mundir, segir Tony Wesolowsky í grein sem birtist hinn 18. júni á vefsíðu Radio Free Europe/Radio Liberty (RFE/RL).
Vitnað er embættismann NATO sem segir að rússnesk stjórnvöld sendi „þúsundir hermanna, þar á meðal vélaherdeildir og landgönguliða, herflugvélar, ný loftvarnakerfi og brynvörð farartæki til svæðisins“.
Rússar eiga engan beinan landaðgang að Kaliningrad og lengi hefur verið þráttað um heimild fyrir þá til að geta farið hindrunarlaust um Litháen til þessa yfirráðasvæðis síns. Litháhum stendur ekki á sama um þróunina og segir Andrius Kubilius, fyrrverandi forsætisráðherra Litháens:
„Þeir efna til mikilla heræfinga í Kaliningrad, mjög, mjög nálægt okkur. Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af þessum hernaðarumsvifum rétt við landamæri okkar.“
Kaliningrad var eitt sinn hluti Austur-Prússlands og hefur um aldir haft hernaðarlegt gildi. Rússar tóku landshlutann af Þjóðverjum árið 1945 og á Sovéttímanum var þar ein stór herstöð lokuð annarra þjóða mönnum. Þar eru nú heimahöfn rússneska Eystrasaltsflotans, tveir herflugvellir og mörg þúsund rússneskir hermenn.
Rússneskar hervélar sem sést hafa á flugi yfir Eystrasalti koma mjög líklega frá Kaliningrad, Svíþjóð, Pólland og Þýskaland eru innan seilingar þaðan, ef svo má að orði komast.
Sérfræðingar velta fyrir sér hvort Rússar hafi sett niður Iskander-eldflaugar til frambúðar í Kaliningrad. Þær geta flutt hvort heldur venjulegar eða kjarnorku sprengjur og draga 400 km sem þýðir að þær ná til margra evrópskra borga, þar á meðal Berlínar og Varsjár.
Til þessa hafa Kremlverjar notað Iskander-flaugarnar sem einskonar skiptimynt í viðræðum um öryggis- og afvopnunarmál við fulltrúa Vesturlanda. Árið 2008 sögðust þeir mundu flytja Iskander til Kaliningrad ef hlutar af eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna og NATO yrðu í Tékklandi og Póllandi. Barack Obama féll frá áformum um það árið 2009.
Talið er að Iskander-flaugar hafi verið fluttar til Kaliningrad í desember 2014 og mars 2015 þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti gaf fyrirmæli um „skyndi-herfæfingar“, það er æfingar án þess að tilkynna NATO eða öðrum um þær fyrirfram.
Dagana 5. til 10. desember 2014 tóku 9.000 hermenn og 55 herskip af ýmsum gerðum þátt í æfingunum.
Brautarteinar liggja um Litháen frá Rússlandi til Kaliningrad og í Litháen býr sá ótti með mönnum að Rússar setji á svið „atvik“ sem þeir noti síðan til ögra stjórnvöldum landsins. Kubilius, fyrrverandi forsætisráðherra, segir:
„Við óttumst hvers kyns ögranir sem kunna að birtast vegna leiðanna um land okkar bæði vegna járnbrauta, gasleiðsla og raflína, eitthvað kann að verða sett á svið til að veita Moskvumönnum, Rússum, átyllu til einhverra árasár-aðgerða.“
Ráðamenn Litháa, Letta og Eistlendinga óskuðu í maí opinberlega eftir að NATO héldi úti mönnuðum herstöðvum í löndum sínum til að bægja frá hættunni af Rússum. Í höfuðstöðvum NATO sögðust menn ætla að íhuga málið.
Vladimir Chizhov, sendiherra Rússa, sagði að tilmælin til NATO væru „til heimabrúks“ þau væru ekki reist á raunverulegu áhættumati.