Home / Fréttir / Rússar viðurkenna að Ríki íslams stóð að hryðjuverkaárásinni

Rússar viðurkenna að Ríki íslams stóð að hryðjuverkaárásinni

Tónleikahöllinn í Crocus-miðstöðinni í Moskvu.

Rússnesk yfirvöld sögðu föstudaginn 24. maí í fyrsta sinn að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams (IS) hefðu staðið að baki hryðjuverkaárásinni á tónleikagesti í Crocus City Hall í Moskvu að kvöldi 22. mars 2024. Að minnsta kosti 143 gestir voru myrtir í árásinni og mun fleiri særðust.

Strax eftir árásina lýsti IS ábyrgðinni á sínar hendur en rússnesk stjórnvöld hafa hvað eftir annað sagt að útsendarar frá Úkraínu eða Vesturlöndum hafi átt hlut að árásinni.

Föstudaginn 24. maí hafði rússneska RIA Novosti-fréttastofan eftir Alexander Bortnikov, forstjóra rússnesku öryggislögreglunnar, FSB, að „undirbúningur, fjármögnun, árásin og undankoma hryðjuverkamannanna [hefði verið] samhæfð á netinu af félögum [IS] í Khorasan-héraði (IS-K)“. Það er deild í IS sem starfar í Afganistan og Pakistan.

Bortnikov útilokaði ekki tengsl við Úkraínu í yfirlýsingu sinni 24. maí. Hann sagði að eftir árásina hefðu hryðjuverkamennirnir fengið skýr fyrirmæli um að halda að landamærum Úkraínu, aðilar handan þeirra hefðu undirbúið „glufu“ fyrir þá.

„Rannsókninni verður fram haldið en nú þegar er unnt að fullyrða með vissu að leyniþjónusta hers Úkraínu tengist árásinni beint,“ sagði forstjóri FSB.

Á annan tug grunaðra hefur verið handtekinn þar á meðal árásarmennirnir fjórir sem koma allir frá Tajikistan í Mið-Asíu, fátæku fyrrverandi sovésku lýðveldi við norður landamæri Afganistans.

Fyrir árásina, snemma í mars 2024, sendu bandarísk stjórnvöld opinberar og leynilegar viðvaranir til rússneskra yfirvalda um að öfgamenn undirbyggju árás á tónleikahús í Moskvu.

Eftir árásina sögðu ónafngreindir bandarískir leyniþjónustumenn bandarískum fjölmiðlamönnum að þeir hefðu sagt yfirvöldum í Moskvu frá því að IS hefði sérstakan augastað á Crocus City Hall við undirbúning aðgerða sinna.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                          Rússar höfðu þessar viðvaranir að engu. Aðeins þremur dögum fyrir árásina sakaði Vladimir Pútin Rússlandsforseti Bandaríkjastjórn um „fjárkúgun“ og tilraun til að „hræða“ Rússa.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …