Home / Fréttir / Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Gervihnattarmynd sýnir eyðileggingu á herflugvelli á Krímskaga.

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í Evrópu, Christopher Cavoli, sagði blaðamönnum fimmtudaginn 16. maí að hann efaðist um að rússneski herinn hefði afl til að breyta vígstöðunni sér í hag með sóknaraðgerð.

„Nánar sagt, þeir ráða hvorki yfir færni eða getu til að gera það; að láta að sér kveða á nógu afgerandi hátt til að nýta sér nokkra sókn í gegnum víglínuna til að ná strategísku forskoti,“ sagði hershöfðinginn

Þegar Cavoli var spurður hvort Rússar væru að hefja sumarsókn sína fyrr en líklegt var talið sagði hann að það væri ómögulegt að segja. Hann bætti hins vegar við að það væru engin merki um að liðsauki væri kallaður á vettvang. Slík sókn yrði ekki gerð án hans.

Í liðinni viku hófu Rússar sókn í Kharkiv-héraði, í norðausturhluta Úkraínu. Þeim tókst að sækja þar lengra fram en þeim hafði tekist síðan þeir réðust inn í Úkraínu 2022.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti fundaði með yfirmönnum úkraínska hersins í Kharkiv fimmtudaginn 16. maí. Hann sagði eftir fundinn að „almennt séð“ hefðu Úkraínumenn héraðið á sínu valdi. Forsetinn viðurkenndi jafnframt að staðan væri „einstaklega erfið“. Hann sagði þó jafnframt að nú væri staðan í fyrsta sinn þannig að stórskotaliðið skorti ekki skotfæri.

Bandaríska hugveitan The Institute for the Study of War telur að her Rússa hafi ekki sótt fram meira en 8 km frá sameiginlegu landamærunum í Kharkiv. Sérfræðingar hennar telja að fyrir Rússum vaki að mynda varðbelti (e. buffer zone) sem komi í veg fyrir að Úkraínumenn geti ráðist inn í rússneska Belgorod-héraðið.

Ráðist á Krímskaga

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að morgni föstudagsins 17. maí að Úkraínuher hefði sent 108 dróna til árása á skotmörk í Rússlandi um nóttina og hefði Krímskagi orðið fyrir víðtækri árás.

Ráðuneytið segir að tekist hafi að eyðileggja drónana 108, 51 yfir Krím, 44 yfir rússneska Krasnodar-héraðinu en þar er Novorossijsk, mikilvægur hafnarbær við Svartahaf. Sex yfir landamærahéraðinu Blegorod og einn yfir landamærahéraðinu Kursk. Þá segir ráðuneytið að sex úkraínskir sjávardrónar hafi verið eyðilagðir í Svartahafi.

Í vestrænum fjölmiðlum sem birta þessar tölur rússneska varnarmálaráðuneytisins er sleginn sá varnagli að ekki hafi tekist að sannreyna hvort tölurnar séu réttar.

Mikhail Razvozjajev, héraðsstjóri Rússa á Krím, segir að árásir Úkraínuhers hafi leitt til rafmagnsleysis eða truflana víða á skaganum, meðal annars í hafnarborginni Sevastopol.

Úkraínuher tókst að eyðileggja tengivirki rafmagns sem tekur nokkra daga að virkja að nýju og á meðan ríkir óvissa um raforku í Sevastopol.

Héraðsstjórinn ákvað því að aflýsa allri kennslu í skólum.

Nú hafa verið birtar gervihnattarmyndir frá bandaríska Maxar-fyrirtækinu sem sýna tjónið sem Úkraínuher hefur valdið með drónaárásum sínum í þessari viku.

Þá gerðu Úkraínumenn tvisvar loftárásir á rússnesku Belbek-flugherstöðina skammt frá Sevastopol á Krím.

Sérfræðingar hafa skoðað myndirnar fyrir CNN og The New York Times og er það niðurstaða þeirra að lýsa megi tjóninu á þennan hátt:

Eyðilagt: Tvær orrustuvélar af gerðinni MiG-31 sem hefur verið lýst sem „hraðfleygustu orrustuvélum heims“.

Eyðilagt: Flugorrustuvél af gerðinni Su-27.

Sködduð: Flugorrustuvél af gerðinni MiG-29.

Eldsneytisbirgðastöð skammt frá flugbraut stöðvarinnar var einnig eyðilögð í árásinni og við það varð eldsvoði.

Talið er að Úkraínuher hafi notað bandarískar ATACMS-flaugar við árásirnar. Það hefur þó ekki fengist opinberlega staðfest. Fyrir nokkrum vikum síðan var sagt frá því að með leynd hefði Bandaríkjastjórn gefið meira en 100 ATACMS-flaugar til Úkraínu.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …