
Norskum flugmálayfirvöldum bárust þriðjudaginn 18. október boð um það frá rússneskri flotadeild á leið suður Norður-Atlantshaf milli Íslands og Noregs að hún mundi hægja á ferð sinni og stunda flugæfingar undan vesturströnd Noregs á Norðursjó frá miðvikudegi til föstudags.
Norðmenn telja ólíklegt að æfingar orrustuþotna við flugtak og lendingu á flugmóðurskipinu Admiral Kuznetsov muni trufla þyrluflug til og frá olíupöllum Norðmanna á Norðursjó. Þá er sagt að flughæð véla á leið yfir Norður-Atlantshaf dugi til að ferðir þeirra truflist ekki. Fimmtudaginn 29. september flugu tvær rússneskar spengjuþotur undir flugvél Icelandair á leið frá Keflavík til Stokkhólms.
Risavaxinn rússneskur floti siglir nú suður með strönd Noregs til stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs segir Thomas Nilsen, ritstjóri vefsíðunnar Independent BarentsObserver, þriðjudaginn 18. október þegar hann lýsir ferðum stærstu herskipa Rússa með 4.000 manns um borð á leið frá Kóla-skaga til Sýrlands.
Nilsen segir þetta í fyrsta sinn sem tvö stærstu herskip Rússa, kjarnorkuknúna orrustubeitiskipið Pyotr Veliky og flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov séu send í stríðsleiðangur. Talið er að flugvélar verði sendar frá skipinu til árása á Aleppo í Sýrlandi. Frá beitiskipinu verði sendar stýriflaugar á borgina.
Fyrir utan þessi tvö skip er tundurspillarnir Severomorsk og Vice-Admiral Kulakov einnig í flotanum ásamt dráttarbáti, eftirlitsskipi og olíuskipi. Talið er líklegt að einn árásarkafbátur úr rússneska norðurflotanum sé með í för ef ekki fleiri.
Þetta er viðamesta og fjölmennasta aðgerð á vegum rússneska norðurflotans frá lokum kalda stríðsins.
Nilsen vitnar í talsmann norsku herstjórnarinnar sem segir að rússneska flotadeildin verði að morgni miðvikudags fyrir utan Rørvik, fyrir sunnan heimskautsbaug. Stefnan hafi verið tekin í Norðursjó og liklegt sé að skipin sigli um Ermarsund í lok vikunnar.
Norðmenn hafa sent freigátu, strandgæsluskip og Orion-eftirlitsflugvélar til að fylgjast með rússneska flotanum sem hélt frá Kóla-skaga laugardaginn 15. október.
Einnig fylgjast herir annarra NATO-ríkja með ferðum skipanna. Norska blaðið Nordlys sagði frá því að laugardaginn 15. október hefði kjarnorkuknúin, bandarískur árásarkafbátur komið úr kafi fyrir utan Tromsø. Í breskum blöðum hafa birst fréttir um viðbúnað af hálfu breska flotans.
Þetta eru ekki einu aðgerðirnar á vegum rússneska norðurflotans um þessar mundir. Skip úr honum hafa verið við æfingar í Barentshafi. Laugardaginn 15. október var skotið stýriflaug úr kafbátnum Smolensk af Oscar-II gerð úr Barentshafi á skotmark skammt frá eyjunni Novaja Zemlja.
Miðvikudaginn 12. október var langdrægri eldflaug skotið úr kafi í Barentshafi frá kafbátnum Novomoskovsk af Delta-IV gerð. Nokkrum mínútum síðar hitti flauginn skotmark sitt á Kura-skotsvæðinu á Kamsjatka-skaga við Kyrrahaf.