Home / Fréttir / Rússar velta fyrir sér að hætta aðild að hafréttarsáttmála SÞ

Rússar velta fyrir sér að hætta aðild að hafréttarsáttmála SÞ

 

Nikolai Kharitonov

Nikolai Kharitonov, formaður nefndar rússneska þingsins um þróun í Austurlöndum fjær og á norðurskautinu, sagði við rússnesku vef-fréttasíðuna Izvestiu mánudaginn 18. mars að til athugunar væri hvort Rússar ættu hugsanlega að segja sig frá hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna á Norður-Íshafi.

„Við munum ekki halda áfram aðildinni okkur til tjóns,“ sagði Kharitonov. „Eins og Vladimir Pútin segir ætlum við ekki lengur að treysta á orð þeirra.  Sé litið niður á norðurskautið úr lofti tilheyra 64% ummál þess Rússlandi. Við höfum gert það allt öruggt og erum skuldbundnir til að vernda allt sem forfeður okkar fólu okkur.“

Til þessa hefur verið litið á hafréttarsáttmálann sem einskonar „stjórnarskrá“ norðurskautsins. Í honum er að finna reglur um hvernig staðið skuli að skiptingu hafsvæða og landgrunns milli þjóða til að útiloka átök milli þeirra á öðrum vettvangi en þeim sem Sameinuðu þjóðirnar standa að til úrlausnar deilumálum með sáttargjörð.

Norska vefsíðan Barents Observer sneri sér til Tore Henriksens, lagaprófessors við UiT, Norðurskautsháskóla Noregs. Hann segir að mjög stór hluti Norður-Íshafs sé undir lögsögu Rússa. Hann segist efast um hag Rússa af því að segja skilið við hafréttarsáttmálann. Þeir hafi að sjálfsögðu fullan rétt til að taka slíka ákvörðun en hafa verði í huga að þar sé í um að ræða ákvæði sem flest eigi sér rót í hefðbundnum meginreglum þjóðaréttar sem gildi áfram gagnvart Rússum. Að því er hann best viti hafi Rússar farið eftir bókinni til þessa á Norður-Íshafi. Þeir hafi virt hafréttarsáttmálann. Hvað sem því líði felist í því nokkuð dramatísk stefnubreyting að segja sig frá sáttmálanum.

Barents Observer segir að undanfarið hafi Rússar lagt sig fram um að ákvarða ytri mörk landgrunns síns í Norður-Íshafi.

Þá er bent á að á vefsíðu Izvestiu sem stjórnað sé af Kremlverjum komi fram að yfirlýsingar um hugsanlega uppsögn Rússa á hafréttarsáttmálanum tengist áhyggjum þeirra af skipum og flugvélum NATO-ríkja sem „stundi njósnir“ á því svæði sem Izvestia segir að sé „rússneskur hluti“ Norður-Íshafs en formlega sé ekki siglt eða flogið inn fyrir 12 mílna landhelgi Rússlands.

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …