
Samskipti grískra og rússneskra stjórnvalda hafa snarversnað eftir að yfirvöld í Aþenu sökuðu ráðamenn í Moskvu um að reyna að múta starfsmönnum ríkisins og blanda sér í grísk innanlandsmál.
Gríska utanríkisráðuneytið sakaði Rússa um að beita „gerræði og illgirni“ við brottrekstur tveggja grískra sendimanna frá Moskvu mánudaginn 6. ágúst.
Rússnesk stjórnvöld ráku mennina úr landi nokkrum vikum eftir að Grikkir gerðu fjóra rússneska sendiráðsmenn brottræka með ásökunum um að þeir reyndu að grafa undan nýgerðum tvíhliða samningi Grikkja og Makedóníumanna sem gerir þeim síðarnefndu kleift að ganga í NATO verði samningurinn staðfestur í báðum löndum.
Gríska utanríkisráðuneytið sagði föstudaginn 10. ágúst að ekki væri unnt að leggja að jöfnu ákvörðun þess um brottvísun Rússanna og brottrekstur Grikkjanna frá Moskvu. „Ákvörðun rússneska utanríkisráðuneytisins var ekki reist á neinum rökum, að baki grísku ákvörðuninni lágu skýrar sannanir fyrir ólöglegum og óvenjulegum aðgerðum rússneskra embættismanna og borgara,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins sem er óvenjulega löng að sögn breska blaðsins The Guardian. Í yfirlýsingunni segir einnig:
„Við viljum minna rússneska vini okkar á að hvergi í heiminum finnst land þar sem þolað er að gerðar séu tilraunir til a) að múta starfsmönnum ríkisins, b) að grafa undan utanríkisstefnu landsins og c) að blanda sér í innanlandsmál.“
Þá hafa grísk stjórnvöld neitað að gefa út vegabréfsáritanir fyrir presta rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar á leið til munkaklaustur-lýðveldisins á Athos-fjalli í Norður-Grikklandi. Rússar krefjast skýringa á höfnuninni.
Ásakanir eru uppi um að innan munkasamfélagsins hafi orðið til „njósnaragreni“. Rússnesk stjórnvöld hafi breytt andlegri miðstöð rétttrúnaðarkirkjunnar á Helgafjalli í miðstöð njósnanets sem miðli fé til upplýsingaöflunar í skjóli klaustra um allt Grikkland.
Allt frá því á dögum Stalíns hafa Rússar litið á Balkanskaga sem áhrifasvæði sitt. Þeir eru því alfarið andvígir aðild Makedóníu að NATO. Grikkjum er hins vegar nóg boðið.
Rússar eru sakaðir um að bjóða mútur til að fá áhrifamenn í leyniþjónustu og her Grikklands til að vinna gegn því að þingið staðfesti samninginn. Hann verður borinn undir þjóðaratkvæðagreiðslu í Makedóníu í september.
Þá eru Rússar sakaðir um að bera fé á öfga-þjóðernishópa í Grikklandi í skjóli menningartengsla sem komið er á fót undir því yfirskyni að verið sé að útbreiða sameiginlega trúar- og menningararfleið sem rekja megi til þess að báðar þjóðir aðhyllast boðskap rétttrúnaðarkirkjunnar.
Grísk-rússneskum innflytjendum sem tóku sér bólfestu skammt frá hernaðarlega mikilvægu Eyjahafs-höfninni í Alexandroupolis eftir hrun Sovétríkjanna hefur hvað eftir annað verið borgað fyrir að efna til mótmæla gegn Makedóníu-samningnum.
Þrátt fyrir gamalgróin og sterk tengsl milli Grikkja og Rússa hefur þessi deila orðið til að afmá alla vináttu í samskiptum þeirra.
Í augum vintsristjórnarinnar í Grikklandi er samningurinn við ríkisstjórn Makedóníu til marks um verulegan sigur á sviði utanríkismála enda tók mörg erfið ár að gera hann. Stjórnin ætlar því að taka fast á móti „gerræðislegum aðgerðum“ undir forystu rússneska utanríkisráðuneytisins.
„Augljóst er að nokkrir Rússar, sem betur fer fáir, telja sig geta athafnað sig í Grikklandi án þess að virða lög og rétt og jafnvel með því að ógna öðrum,“ sagði gríska utanríkisráðuneytið.