Home / Fréttir / Rússar vara við „óviljandi atvikum“ á norðurslóðum

Rússar vara við „óviljandi atvikum“ á norðurslóðum

Nikolai Kortsjunov, núverandi formaður embættismannaráðs Norðurskautsráðsins.

Nikolai Kortsjunov, núverandi formaður embættismannaráðs Norðurskautsráðsins, sagði sunnudaginn 17. apríl að til „óviljandi atvika“ kynni að koma yki NATO hernaðarumsvif sín á norðurslóðum (e. Arctic). Hann skýrði ekki nánar við hvaða „atvik“ hann ætti.

Rússneska fréttastofan TASS skýrði frá þessu en í frétt Reuters frá 18. apríl er minnt á að í mars hafi hermenn frá Svíþjóð og Finnlandi, sem íhugi nú aðild að NATO, tekið þátt í NATO-heræfingunni Cold Response 2022. Æfingin hafi verið skipulögð og undirbúin löngu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022.

„Það er áhyggjuefni að NATO auki nú umsvif sín á norðurslóðum. Enn ein stór heræfing var nýlega í Norður-Noregi. Að okkar mati eykur slíkt ekki öryggi á svæðinu“ sagði Kortsjunov sendiherra. Rússar fara nú með formennsku í Norðurskautsráðinu. Starfsemi þess er hins vegar í biðstöðu vegna rússnesku stríðsaðgerðanna í Úkraínu.

Sendiherrann sagði að auk öryggishættunnar vegna „óviljandi atvika“ væri það mjög skaðlegt fyrir umhverfið á norðurslóðum að efna til heræfinga þar.

Í frétt Reuters er minnt á að fimmtudaginn 14. apríl hafi einn helsti samstarfsmaður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta sagt að gengju Svíar og Finnar í NATO myndu Rússar setja kjarnavopn og ofurhraðfleygar flaugar niður í hólmlendu sinni Kaliningrad.

Eftir að þessi hótun birtist var minnt á það í Litháen að Rússar hefðu nú þegar kjarnavopn í Kaliningrad.

Í samtali við Morgunblaðið í dag (19. apríl) segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að ríkisstjórn Íslands styðji aðild Finna að NATO. Hún segir að Rússum standi „alls engin ógn af Atlantshafsbandalaginu, hvort sem Finnland er aðili eða ekki“.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …