
Rússar töpuðu naumlega kosningu um sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna föstudaginn 28. október. Úrslitin endurspegla alþjóðlega fordæmingu á framgöngu rússneska hersins í Sýrlandi.
Greidd voru atkvæði um fulltrúa ríkja í austurhluta Evrópu í Mannréttindaráðinu. Króatar sigruðu Rússa með tveimur atkvæðum og Ungverjar sigruðu þá með 32 atkvæðum. Fulltrúar allra 193 ríkjanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna tóku þátt í kosningunni. Gerard van Bohemen, fastafulltrúi Nýja Sjálands, sagði að það hefði mátt heyra „dálítil undrunarandvörp“ í stóra þingsalnum þegar úrslitin voru kunn.
Hann telur að framganga Rússa í Sýrlandi og þar með loftárásirnar í Aleppó „hljóti að hafa skipti máli“.
Rússneski sendiherrann, Vitalíj I. Tsjurkin, neitaði að svara spurningum blaðamanns The New York Times um hvort úrslitin hefðu ráðist af ástandinu í Sýrlandi. „Við þurfum hvíld,“ sagði hann. Þó sagði hann að „straumar alþjóðastjórnmálanna“ hefðu meiri áhrif fyrir land sitt en hinna landanna tveggja.
Alls eiga 47 þjóðir fulltrúa í Mannréttindaráðinu. Stundum er það kallað skálkaskjól fyrir þá sem brjóta gegn þessum réttindum. Meðal þeirra sem sitja nú í ráðinu eru nú fulltrúar frá Burundi, Kína, Sádí-Arabíu og Venezúela.
Fulltrúar Kína og Sádí-Arabíu voru endurkjörnir föstudaginn 28. október, í raun sjálfkjörnir sem fulltrúar Asíu-landa. Þá voru fulltrúar Bretlands og Bandaríkjanna endurkjörnir nær einróma.
Þar sem greidd voru atkvæði milli ríkja skipti ósigur Rússa mestu.
Aldrei fyrr hefur ríki sem á fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna tapað kosningu um fulltrúa í Mannréttindaráðinu, sem stofnað var árið 2006 til að stuðla að „kynningu og vernd mannréttinda“. Kjörtímabil fulltrúa í ráðinu eru þrjú ár.
Á undan þessu ráði starfaði mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og árið 2001 tapaði fulltrúi Bandaríkjanna kosningu í nefndina. Þetta virtist koma stjórn Bush forseta á óvart en hún taldi að ósigurinn mætti rekja til umdeildrar afstöðu Bandaríkjamanna til Kína, Kúbu og deilna Ísraela og Palestínumanna. Colin L. Powell, þáv. utanríkisráðherra, sagði þá: „Við skildum dálítið blóð eftir á gólfinu.“
Ári síðar náði bandaríski fulltrúinn kjöri.
Mannréttindaráðið hefur pólitísk áhrif. Á vegum þess starfa meðal annars hópar sem rannsaka stöðu mannréttindamála í einstökum löndum. Talsmenn mannréttinda höfðu vonað að ráðið fæli hópi að rannsaka kvartanir um brot í Jemen. Sádar lögðust harkalega gegn slíkri rannsókn og hefur fulltrúi þeirra nú náð endurkjöri.
„Það er erfitt að ímynda sér að ódæðisverkin í Aleppó hafi ekki haft verið þeim ofarlega í huga sem kusu í dag,“ sagði Akshaya Kumar hjá samtökunum Human Rights Watch sem hafa barist hart gegn kjöri fulltrúa Rússlands og Sádí-Arabíu. Vildu samtökin að kosið yrði milli fulltrúa ólíkra landa á öllum kjörsvæðum.