Home / Fréttir / Rússar uppræta markvisst menningu í Úkraínu

Rússar uppræta markvisst menningu í Úkraínu

Sérfræðingar í umboði Sameinuðu þjóðanna sögðu miðvikudaginn 22. febrúar að „markviss“ eyðilegging Rússa á menningu Úkraínu með stríðsaðgerðum í eitt ár jafngilti tilraun til að svipta Úkraínumenn rétti til eigin sjálfsmyndar. Hvöttu sérfræðingarnir til þess að Rússar hættu að ráðast af ásetningi á staði, stofnanir og menningarminjar og annað sem hefði sögulegt og trúarlegt gildi fyrir Úkraínumenn.

Sérfræðingarnir sögðu að til að réttlæta stríð og hatur væri vegið að sögu og ímynd úkraínsku þjóðarinnar. „Fjöldi staða, stofnana, menningarminja og annað sem hefur sögulegt og trúarlegt gildi í Úkraínu hefur verið eyðilagt að hluta eða öllu leyti í hernaðarárásum Rússneska sambandsríkisins,“ sögðu sérfræðingarnir í yfirlýsingu. „Þar á meðal eru minningarmörk, borgaraleg mannvirki, söfn, leikhús, minnismerki, höggmyndir, staðir til trúariðkana, kirkjugarðar, bókasöfn, skjalasöfn auk skóla, háskóla og sjúkrahúsa.“

Yfirlýsingin er samin að sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um menningarleg réttindi, rétt til menntunar og frelsis í trúmálum. Þeir eru sjálfboðaliðar sem starfa sjálfstætt í umboði mannréttindaráðs SÞ en tala ekki fyrir hönd SÞ.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …