Home / Fréttir / Rússar undrast vangaveltur um viðveru bandarískra hermanna í Noregi

Rússar undrast vangaveltur um viðveru bandarískra hermanna í Noregi

Bandarískir landgönguliðar.
Bandarískir landgönguliðar.

Rússar hafa lýst undrun yfir vangaveltum um að Bandaríkjaher kunni að hafa fasta viðveru í Noregi.

„Sé tekið mið af fjölmörgum yfirlýsingum norskra embættismanna um að Noregi stafi ekki ógn af Rússum þætti okkur gott að geta skilið hvers vegna Norðmenn hafa svona mikinn áhuga á að auka hernaðargetu í landi sínu, einkum með því að bandarískur herafli hafi aðsetur í Værnes,“ segir í tölvubréfi sem Maxime Gourov, talsmaður sendiráðs Rússa í Osló, sendi AFP-fréttastofunni föstudaginn 21. október.

Værnes er um 1.000 km frá landamærum Rússlands og Noregs.

Á vefsíðunni local.no er rifjað upp laugardaginn 22. október að mánudaginn 10. október hafi norska varnarmálaráðuneytið sagt að könnunarviðræður færu fram milli norskra og bandarískra hernaðaryfirvalda um slíka viðveru bandarískra hermanna og um „aukna þjálfun og geymslu“.

„Hér getur verið um eitthvað að ræða sem gert er með herafla sem dvelur í skamman tíma … það eru engin áform um fasta viðveru,“ sagði Ann Kristin Salbuvik, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, við AFP.

Norska blaðið Adresseavisen sagði einnig frá því 10. október að bandaríska varnarmálartáðuneytið vildi að 300 bandarískir landgönguliðar yrðu í Værnes og þeir kæmu þangað í janúar 2017.

Bandaríkjamenn eiga mikið magn af hertólum í geymslu í Noregi, einkum í göngum sem hafa verið grafin í fjöll.

„Með því að senda reglulega hermenn til Noregs aukum við gagnkvæma getu herafla okka til að starfa saman,“ sagði Niel Nelson, bandaríski hershöfðinginn sem er æðsti yfirmaður bandarískra landgönguliða í Evrópu og Afríku, við bandaríska fjölmiðla fyrir fáeinum dögum.

Áður en Norðmenn urðu ein af stofnþjóðum NATO árið 1949 komu þeir til móts við Rússa með fyrirheiti um að erlendur herafli hefði ekki aðsetur í Noregi yrði landið ekki fyrir árás eða ógnað með henni.

Síðar var ákveðið að heimila erlendu herliði að stunda æfingar í Noregi.

Gourov í rússneska sendiráðinu í Osló segir að stefnan um bann við erlendum her í Noregi sem hafi meira að segja verið virt í kalda stríðinu hafi skapað Norðmönnum jákvæða sérstöðu gagnvart Rússum miðað við önnur NATO-ríki.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …