
Sayan-vetrargöngukeppnin hefst í suðurhluta Síberíu í Rússlandi miðvikudaginn 14. apríl. Hún er liður í alþjóðlegri keppni hermanna árið 2021 (e. International Army Games) sem fram fer í Rússlandi. Í Sayan-keppninni reynir á hæfni hermanna til að takast á við mikla vetrarkulda í erfiðu fjalllendi.
Kínverska blaðið South China Morning Post (SCMP) skýrði frá því fyrir skömmu að 11 kínverskir hermenn yrðu sendir til þátttöku í Sayan-göngunni. Kínverjar tóku þátt í þessari alþjóðlegu keppni hermanna í Rússlandi í fyrra en nú eru fulltrúar Kína í fyrsta skipti sendir til þátttöku í forkeppni aðalkeppninnar að sögn SCMP.
Á High North News, norskri vefsíðu, er birt hugleiðing af þessu tilefni eftir Dr. Elizabeth Buchanan, sem kennir hernaðarfræði (e.Lecturer in Strategic Studies) í Deakin-háskóla í Ástralíu og er félagi í Modern War Institute við West Point í Bandaríkjunum.
Hún segir ekki undrunarefni að kínverskir hermenn séu sendir til þjálfunar á ofurköldum svæðum eða við heimskautaaðstæður. Án slíkrar þjálfunar sé ekki unnt að senda liðsafla til starfa á heimskautasvæðunum.
Buchanan segir að þótt Rússar skipuleggi þetta sem alþjóðlega keppni fyrir hermenn séu þeir jafnframt þjálfaðir í hernaði undir þessu nafni. Í huga kínverskra ráðamanna skipti máli að hermenn þeirra læri að starfa við erfiðar og kaldar aðstæður við heimskautin, þá sé til þess að líta að spenna magnist milli Kínverja og Indverja í Himalæjafjöllunum þar sem aðstæðum svipi til þess sem er á pólunum tveimur og í þriðja lagi sé Rússum ekki á móti skapi að auðvelda pólaþjálfun Kínverja. Setja megi þetta allt í samhengi við langtíma geo-strategíska þróun og afleiðingar hennar.
Hún telur að rússneskir ráðamenn sjái sér hag af því um þessar mundir að draga athygli að samvinnu sinni við Kínverja í þessum efnum og að Rússar njóti þess að kenna „litla bróður“ hvernig hann eigi að takast á við hörkufrost og afleiðingar þess, það styrki sjálfsmynd Rússa í samskiptum þeirra við Kínverja.
Dr. Elizabeth Buchanan bendir þó á að í því felist nokkur pólitísk áhætta fyrir rússnesk stjórnvöld að búa kínverskan herafla undir heimsakautaátök sé litið til þess hvernig Pekingstjórn kunni að beita herstyrk sínum á norðurslóðum.
Auk þátttakenda frá Rússlandi og Kína verða hermenn frá Uzbekistan, Abkhaziu, Suður-Ossetiu, Tajikistan og Kyrgyzstan í alþjóðlegu hermannakeppninni.