Home / Fréttir / Rússar telja gengið á hlut Rauða hersins

Rússar telja gengið á hlut Rauða hersins

Uppgjafarskjal Þjóðverja frá 8. maí 1945.
Uppgjafarskjal Þjóðverja frá 8. maí 1945.

Rússneska utanríkisráðuneytið lýsti „megnri vanþóknun“ vegna yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar föstudaginn 8. maí sem virtist þakka Bandaríkjamönnum og Bretum sigur yfir Þýskalandi nazista árið 1945.

„Á aðfarardegi heilags hátíðardags höfðu bandarískir embættismenn hvorki hugrekki né vilja til þess einu sinni að gefa til kynna óvéfengjanlegan hlut og hrikalegt mannfall Rauða hersins og sovésku þjóðarinnar í þágu alls mannkyns,“ sagði í rússnesku yfirlýsingunni.

Á Instagram birtu starfsmenn Hvíta hússins myndskeið og þessi orð: „Áttunda maí 1945 unnu Bandaríkin og Bretland sigur á nazistum! Hugdirfska Bandaríkjanna er ávallt sigursæl. Þannig fer það að lokum.“

Rússneska Interfax-fréttastofan leitaði álits bandaríska sendiráðsins í Moskvu sem svaraði: „Við viljum benda á margar nýlegar yfirlýsingar þar sem áréttaðar eru sameiginlegar aðgerðir okkar og mannfall.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútín Rússlandsforseti gáfu í apríl út sameiginlega yfirlýsingu í tilefni af því að 75 ár voru liðin frá að bandarískir og sovéskir hermenn hittust við ána Elbu í Þýskalandi.

„Við stefnum að alvarlegum viðræðum við bandaríska embættismenn um þetta mál,“ sagði í lok yfirlýsingar rússneska utanríkisráðuneytisins.

 

Heimild: RFE/RL

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …