Home / Fréttir / Rússar telja birtingu Panama-skjalanna aðför að Pútín – vitna í Kristin Hrafnsson sér til trausts

Rússar telja birtingu Panama-skjalanna aðför að Pútín – vitna í Kristin Hrafnsson sér til trausts

RUSSIA-UKRAINE-BRITAIN-NETHERLANDS-ENERGY-OIL-CRISIS-SANCTIONS-E

Rússneska fréttastofan RT birti miðvikudaginn 6. apríl frétt þess efnis að stjórnvöld í Washington stæðu að baki birtingu Panama-skjalanna og vitnuðu í Kristin Hrafnsson, upplýsingafulltrúa WikiLeaks máli sínu til stuðnings. Til árásarinnar væri „gripið“ til að vega að Rússlandi og Pútín forseta.

Segir í fréttinni að miðvikudaginn 6. apríl hafi WikiLeaks hin alþjóðlega uppljóstrunarstofnun sagt á Twitter að Panama-skjölin væru framleidd af Organized Crime and Corruption Reporting Project (OCCRP), fréttaverkefni um skipulagða glæpastarfsemi og spillingu, sem „beint er gegn Rússlandi og fyrrverandi USSR [Sovétríkjunum]“. Þá segir að „Pútín-árásin“ sé fjármögnuð af

US Agency for International Development (USAID), þróunarstofnun Bandaríkjanna og milljarðamæringnum George Soros. WikiLeaks telji að með fjárstuðningi sínum við slíka árás dragi Bandaríkjastjórn mjög úr gildi málsins.

Þá segir RT að seinna hafi WikiLeaks sett á Twitter að kenningin um að öllu Panama-skjalamálinu væri beint gegn Rússum væri „vitleysa“ en sakaði Bandaríkjamenn áfram um að stýra fréttaflutningi á þann veg að ráðamenn í Moskvu væru í skotlínunni.

Þá er minnt á að stofnunum í eigu Soros hafi verið „úthýst“ í Rússlandi. Ríkissaksóknari Rússlands bannfærði Open Society Foundations og Open Society Institute Assistance Foundation, stofnanir til stuðnings opnu þjóðfélagi sem Soros rekur í fyrra. Þá var rússneskum ríkisborgurum og stofnunum bönnuð þátttaka í verkefnum á vegum stofnananna.

Saksóknarar sögðu síðan að starfsemi stofnananna ógnuðu rússneskri stjórnskipun og þjóðaröryggi. Fyrr á þessu ári hélt Soros því fram að Pútín væri „enginn bandamaður“ leiðtoga Bandaríkjanna og ESB og markmið hans væri „að hagnast verulega fjárhagslega af því að sundra Evrópu“.

Þá vitnar RT í þýska blaðamanninn og rithöfundinn Ernst Wolff sem segir:

„Bandaríkjastjórn fylgir stefnu gegn stöðugleika um heim allan og þessi [leki] stuðlar einnig að óstöðugleika. Þetta veldur því að margt fólk um heim allan ásamt miklum fjármunum leitar  í [ný] skattaskjól í Ameríku. Bandaríkjamenn búa sig undir ofur-fjármálakreppu og þeir vilja að allt þetta fé sé í hirslum þeirra en ekki í hirslum annarra þjóða.“

Þá segir RT að forstöðumaður International Consortium of Investigative Journalists (ICIJ), alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna sem hafi komið að úrvinnslu Panama-skjalanna segi að markmið lekans sé ekki að koma höggi á Pútín heldur sé tilgangurinn að bregða ljósi á skuggalega aflandsstarfsemi alþjóðlega. „Fréttin var ekki um Rússland. Fréttin var um aflands-heiminn,“ sagði Gerard Ryle, forstöðumaður ICIJ, við TASS-fréttastofuna.

RT segir yfirlýsingu hans í hróplegri andstöðu við fréttir alþjóðlegra miðla um „mesta leka í sögu aflandsstarfsemi“. Þótt hvergi sé minnst beint á Vladimír Pútín eða nokkra úr fjölskyldu hans í skjölunum hafi mörg af aðalblöðum heims valið mynd af Rússlandsforseta með fyrstu fréttum sínum af málinu.

RT vitnar í Ray McGovern, fyrrv. starfsmann CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, sem segir:

„Þarna kynnumst við dylgjum, algjöru virðingarleysi fyrir viðteknum reglum hjá vestrænum fjölmiðlum, meginmistök þess sem stóð fyrir lekanum var að afhenda grónum miðlum þessi skjöl. Það er í raun fyndið væri þetta ekki svona alvarlegt.“

Dmitríj Peskov talsmaður Rússlandsforseta sagði:

„Pútínóvildin er komin á það stig að ómögulegt er að fara lofsyrðum um Rússland eða þann árangur sem náðst hefur í landinu. Tala verður [um Rússland] á neikvæðan hátt, því neikvæðari því betra, og hafi menn ekkert um að tala verða þeir að skálda eitthvað.“

RT segir að íslenski rannsóknarblaðamaðurinn Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks, hvetji til þess að gögn sem lekið hafi verið séu sett á netið svo að allir geti leitað í gögnunum. Það væri varla unnt að kalla það „ábyrga blaðamennsku“ að birta ekki skjölin.

„Þegar þeir segja að þetta sé ábyrg blaðamennska, er ég algjörlega ósammála almennum fullyrðingum um það,“ segir meðstofnandi Icelandic Center for Investigative Journalism – Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku á Íslandi – við Afshin Rattansi, blaðamann RT, þegar hann er beðinn álits á orðum forstöðumanns ICIJ um að samtökin séu ekki WikiLeaks og þau vilji sýna að unnt sé að stunda blaðamennsku á ábyrgan hátt með því að birta ekki skjölin í heild.

„Þau ættu að vera aðgengileg almenningi svo að allir geti leitað í þeim en ekki aðeins hópur blaðamanna sem vinnur beinlínis við úrvinnslu gagnanna,“ segir Kristinn Hrafnsson.

Talsmaður WikiLeaks sagði einnig við RT að það undri hann ekki að ekki sé að finna neitt stórt bandarískt nafn í skjölunum 11,5 milljón sem lekið var frá lögmannsskrifstofunni í Panama.

„Þarna virðist að minnsta kosti halla bandarískum hagsmunum í vil. Vissulega kann þetta ekki að stafa af vilhöllum viðhorfum blaðamanna heldur einfaldlega af því að skjölin sjálf eru vilhöll,“ sagði Kristinn Hrafnsson og bætti við að Mossack Fonseca [lögmannsstofan í Panama] „er aðeins lögmannsstofa í Panama sem þjónar og útvegar einkum skattaskjól á BVI [British Virgin Islands].“

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …