
Stór heræfing Rússa og Hvít-Rússa hófst fimmtudaginn 14. september fyrir botni Eystrasalts. Um æfinguna er fjallað í leiðara Jyllands Posten föstudaginn 15. september og birtist hann hér í lauslegri þýðingu:
Rússar efna nú að nýju til umfangsmikillar heræfingar, Zapad, sem er rússneska orðið fyrir vestur. Nánar sagt er hér um æfinguna Zapad 17 að ræða en hún er ekki aðeins ólík Zapad 13 með vísan til tölunnar sem táknar árið 2013. Margt hefur breyst á þessum fjórum árum sem liðin eru frá því að Rússar sendu riddaraliðið í nágrenni landamæra NATO. Nægir að minna á innlimun Krímskaga árið 2014.
Rússar segja sjálfir að æfingin snúist eingöngu um að takast á við hryðjuverkamenn, þeir eru kallaðir óvinveittir uppreisnarmenn, þegar nokkur þúsund hermenn skipa sér í fylkingar meðal annars í Hvíta-Rússlandi og Kaliningrad.
Innan NATO líta menn bæði á æfingarstaðina og fjölda hermanna sem taka þátt í æfingunni sem merki um að Rússar vilji sýna hve leiðin er stutt til nýju framvarðarlanda NATO, Eistlands, Lettlands og Litháens.
Hvorki í Eystrasaltsríkjunum né í Póllandi telja menn ástæðu til að láta sér Zapad í léttu rúmi liggja.
„Tilgangur þessarar æfingar er öðrum þræði að meta vilja innan NATO til að grípa til varna í þágu Eystrasaltsríkjanna. Þess vegna má segja að þessar þjóðir standi frammi fyrir því að æft sé hvernig eigi að beita þær valdi,“ segir Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra í Berlingske.
Það er dæmigert fyrir spennuna milli NATO og Rússa að ekki er einhugur um hve margir hermenn taki þátt í æfingunni. Rússar segja að 12.700 hermenn taki þátt. Með þeirri tölu halda þeir sér nákvæmlega undir örlagatölunni 13.000 menn en hún kallar á að eftirlitsmenn frá ÖSE fylgist með því sem gerist.
Nokkrir herfræðingar hafa getið sér til að alls taki um 100.000 manns þátt í Zapad 17 og skýrist talan meðal annars með æfingum sem stofnað er til við hliðina á Zapad.
Það liggur í hlutarins eðli að æfingin er alvörumál. Þá minnkar ekki alvaran þegar litið er til þess sem gerst hefur eftir fyrri stórar rússneskar heræfingar. Í ljós hefur komið að við lok æfingarinnar fer því fjarri að allir hermennirnir séu kallaðir aftur í búðir sínar. Einnig sýnir sagan frá Georgíu árið 2008 eða Úkraínu 2014 að heræfingar hafa reynst aðalæfing fyrir raunverulega rússneska íhlutun.
Varla verður þetta svona slæmt núna. Hvorki Georgía né Úkraína eru í NATO. Í því felst þó alls ekki að NATO geti skorast undan varðstöðu. Umfang æfingarinnar og æfingarsvæðið er sýning á valdi sem NATO ber að líta mjög alvarlegum augum. Einkum er brýnt að hafa auga með því að allir hermenn snúi aftur heim þegar æfingunni lýkur formlega.
Í kalda stríðinu voru Danir meðal næstu nágranna Varsjárbandalagsins og það var fylgst náið með umsvifum á Eystrasalti. Nú búa Danir í meira skjóli og þeir eru af þeim sökum eina þjóðin við Eystrasalt sem hefur ekki nú þegar aukið varnir sínar þar. Norðurlandaþjóðirnar hafa löngum beint athygli sinni að Eystrasaltinu en þær hafa einnig aukið varnarsamvinnu sína. Frá og með næstu áramótum verða 200 danskir hermenn við störf í herafla NATO í Eistlandi, það er aðeins fyrsta skrefið til að efla sameiginlegt átak.
Rússar hafa oftar en einu sinni reynt að fæla Svía með ógnunum frá því að ganga í NATO og Danir hafa fundið fyrir því að það andar köldu frá Rússum. Úr því að Rússar vilja á jafn greinilegan hátt og kemur fram í Zapad-æfingunni láta reyna á varnarvilja NATO er aðeins eitt svar við því: að sýna að NATO þjóðirnar standi saman og bandalagið ætli að verja Eystrasaltsríkin. Það gerir auðvitað enginn ókeypis.