Home / Fréttir / Rússar sviðsettu árás á norska ratstjárstöð

Rússar sviðsettu árás á norska ratstjárstöð

Ratsjárstöðin við Vardø.
Ratsjárstöðin við Vardø.

Fyrir einu ári, 24. mars 2017, settu níu rússneskar flugvélar á svið árás á ratsjárstöð Norðmanna við bæinn Vardø á Vardøya við Barentshafsströnd Noregs, skammt frá heimahöfn langdrægra kjarnorkukafbáta Rússa.

Í árlegri ræðu sem Morten Haga Lunde, hershöfðingi, yfirmaður Leyniþjónustu norska hersins, flutti í Hermálafélaginu í Osló í fyrri viku sagði hann í fyrsta skipti frá því að áhafnir sprengjuvéla frá herflugvöllum á Kóla-skaga hefðu sviðsett árásina. Hann sýndi flugleið vélanna í árásarstöðu rétt norðaustan við norsku lofthelgina. Engin flugvélanna rauf lofthelgina en þeim var flogið nógu nærri henni til að beita vopnum þeirra áður en þeim var snúið aftur til heimastöðva.

Kristin Enstad, upplýsingafulltrúi norska utanríkisráðuneytisins, sagði við Barents Observer að málið hafi verið tekið upp við rússnesk yfirvöld:

„Utanríkisráðuneytið getur staðfest að málið hefur verið tekið upp við viðeigandi rússnesk yfirvöld. Það var einnig tekið skýrt fram að við teljum slíka framkomu ekki stuðla að góðum nágrannatengslum. Hún dregur þvert á móti úr trausti, fyrirsjáanleika og stöðugleika á norðurslóðum.“

Með Globus-ratsjánum við Vardø er unnt að fylgjast með ferðum í lofti yfir Barentshafi og annars staðar þar sem Norðmenn hafa hagsmuna að gæta í norðri segir í stuttri lýsingu á vefsíðu norsku leyniþjónustunnar. Þá skrá ratsjárnar einnig upplýsingar um ferðir í geimnum.

Yfirmaður leyniþjónustunnar sagði að fyrir utan þessa „árás“ á Vardø-ratsjárstöðina í mars 2017 hefðu Rússar sviðsett tvær árásir til viðbótar. Í maí var 12 flugvélum flogið í einum hópi á ögrandi hátt í átt að NATO-herskipum við æfingar á Noregshafi fyrir utan Tromsø. Síðar í maí var stofnað til svipaðs leiðangurs gegn hernaðarmannvirkjum á Bodø-svæðinu.

Þegar Rússar efndu til umfangsmiklu Zapad-2017-æfingarinnar í september olli það vandræðum í farþegaflugi á vegum SAS og Widerøe til Kirkenes og Vardø að GPS-staðsetningartæki í flugvélum félaganna voru trufluð. Í um það bil viku varð að nýta aðra tækni til að tryggja öryggi í flugi vélanna til og frá þessum stöðum. Rússar trufluðu GPS-tækin með sendingum frá stöðvum sínum á Kóla-skaga austan við norsku landamærin.

 

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …