Home / Fréttir / Rússar sviðsetja mótmæli víða í Evrópu fyrir áróður á samfélagsmiðlum

Rússar sviðsetja mótmæli víða í Evrópu fyrir áróður á samfélagsmiðlum

Sami boðskapur og sömu ritvillur í ólíkum löndum. Hér eru fjögur dæmi frá mótmælum árið 2023: París 11/2, Brussel 14/2, Haag 31/1 og Madrid 12/2.

Rússnesk leyniþjónusta tengist blekkingarmótmælum í stórborgum Evrópu að sögn danska ríkisútvarpsins, DR, mánudaginn 8. maí.
DR segist hafa gögn sem sýni að rússnesk leyniþjónusta hafi staðið að baki götumótmælum í París í mars 2023. Í trúnaðargögnum sem lekið hafi verið segi að markmiðið hafi verið að skapa sundrung í Evrópu.
Sagt hafi verið frá aðgerðunum í París á samfélagsmiðlum af mönnum sem búsettir séu í St. Pétursborg og viti DR hverjir þeir eru.
Sömu menn hafi stundað upplýsingafalsanir um að það hafi verið efnt til mikilla mótmæla gegn vopnaaðstoð til Úkraínu í Frakklandi, Belgíu, Hollandi og á Spáni.
Með því að nota skráningar sínar hafi mennirnir reynt að dreifa falsfréttunum til hundruð þúsunda einstaklinga á Facebook og YouTube.
Fréttamenn DR hafa unnið að því að kortleggja þessa leynilegu starfsemi í samvinnu við rannsóknarstofnunina Dossier Center og blöðin Le Monde, Süddeutsche Zeitung og Expressen fyrir utan útvarpsstöðvarnar Westdeutscher Rundfunk, Norddeutscher Rundfunk, NRK og SVT.
„Það eru augljósar líkur á að þetta komi frá sömu rússnesku þjónustunni þar sem þeir hafa lagt á ráðin um hvernig þeir gætu valdið óróa til að hafa áhrif á stjórnmálakerfin og ef til vill kveikt eitthvað sem kalli fólk út á göturnar,“ segir
Flemming Splidsboel, sérfræðingur við Dansk Institut for Internationale Studier (DIIS), Dönsku utanríkismálastofnunina, eftir að hafa skoðað gögn í vörslu DR.
DR hefur alls greint tíu aðgerðir þar sem teknar hafa verið myndir fyrir mennina til dreifingar.
Til aðgerðanna var stofnað í evrópsku borgunum Haag, Brussel, París og Madrid frá desember 2022 til mars í ár.
Þegar myndir frá aðgerðum eru skoðaðar kemur í ljós að skiltin í höndum þeirra sem standa á myndunum eru öll með sama boðskap, skriftin er nákvæmlega sú sama og einnig ritvillurnar.
Þar að auki eru sömu mennirnir þátttakendur í fleiri en einni mótmælaaðgerð. Þá sýna myndirnar einnig að einstaklingar sem mótmæla Úkraínu á einum stað taka jafnframt þátt í mótmælum um eitthvað allt annað.
Í frásögnum á samfélagsmiðlum er hins vegar talað um mótmælin á þann veg að þúsundir manna hafi farið um götur og torg til að mótmæla vopnaaðstoð við Úkraínu.
Søren Liborius, aðalráðgjafi við utanríkisþjónustu ESB um áróður Rússa og upplýsingafalsanir, segir að það verði algengara að Rússar beiti „stuttum aðgerðum“ til að nýta sér fjölmennar mótmælaaðgerðir
„Þar halda þeir á nokkrum spjöldum með textum eins og: „Við viljum ekki senda vopn til Úkraínu“ eða „Niður með ríkisstjórnina vegna Úkraínustefnunnar.“ Síðan líti þetta út eins og um 100.000 mótmælendur hafni vopnaaðstoð til Úkraínu,“ segir hann.

Í frétt DR segir að 11. febrúar 2023 hafi þúsundir Frakka farið út á götur miðborgar París til að mótmæla umdeildum breytingum á eftirlaunakerfinu.
Til fjölmargra Facebook¬-hópa hafi síðan verið dreift myndum frá þessum mótmælaaðgerðum af þremur körlum. Þeir mótmæltu Úkraínu á sama tíma og allir aðrir voru með eftirlaunaspjöld á lofti.
Send voru út myndskeið á YouTube þar sem sagt var að fjölmenn mótmæli hefðu farið fram gegn Úkraínu og NATO.
Einn karlanna þriggja tók nokkrum vikum síðar – 5. mars – þátt í annarri mótmælaaðgerð í París. Þar sést hann nota nazistakveðju í götuaðgerðum gegn Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta. Með þessu vildu Rússar stuðla að óvild milli ESB og Tyrkja.
Maðurinn hefur ekki brugðist við ósk DR um viðtal.
Í frétt DR eru nefnd dæmi um 10 sviðsett mótmæli í Evrópu. Þar segir að tveir menn frá löndum í Norður-Afríku sem séu búsettir í St. Pétursborg dreifi þessu efni á samfélagsmiðla.
DR segir að annar þeirra sé á þrítugsaldri og komi frá Alsír. Hann hafi flutt sem háskólanemi til Rússlands árið 2019.
Flemming Splidsboel hjá DIIS telur „sennilegt“ að þeir sem taki þátt í mótmælum gegn Úkraínu geri það gegn greiðslu. Fordæmi séu fyrir slíkum greiðslum frá rússneskum sendiráðsmönnum, til dæmis í Grikklandi. Þar hefur fólk fengið fé frá rússneska sendiráðinu fyrir að taka þátt í mótmælaaðgerðum gegn grískum stjórnvöldum.
Hinn maðurinn kom frá Marokkó til St. Pétursborgar árið 2018 til að stunda háskólanám. Hann tengist mörgum fölskum nöfnum sem notuð hafa verið til að skrá notanda á Facebook.
Søren Liborius, frá utanríkisþjónustu ESB, finnst ekki undarlegt að menn frá Alsír og Marokkó dreifi efni fyrir rússneska leyniþjónustu. Það sýni raunar að þeir geri þetta ekki í tómstundum sínum frá námi heldur taki þetta að sér sem launað verkefni.
Eftir að DR hafði samband við námsmennina í St. Pétursborg frá Alsír og Marokkó hurfu reikningar þeirra af Facebook og YouTube.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …