Home / Fréttir / Rússar sviðsetja árás á sig – Erdogan í Kiev

Rússar sviðsetja árás á sig – Erdogan í Kiev

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti var í Kiev fimmtudaginn 3. febrúar og ræddi við Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta.

Bandaríkjastjórn sakar Rússa um að sviðsetja atvik sem á að sýna árásarher Úkraínu sækja fram. Tilgangurinn sé að réttlæta fyrir rússneskum almenningi væntanlega innrás rússneska hersins í Úkraínu.

John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði fimmtudaginn 3. febrúar að fyrir lægju trúverðugar heimildir um þetta þaulhugsaða bragð Rússa. Um væri að ræða áróðursmyndband sem sýndi sprengjuárásir, lík og harmi slegna syrgjendur.

„Við höfum áður kynnst þessum vinnubrögðum Rússa og teljum miklu skipta að afhjúpa þau þegar okkur gefst tækifæri til þess,“ sagði Kirby við blaðamenn.

Liz Truss, varnarmálaráðherra Breta, sagði að upplýsingarnar sem Bandaríkjamenn hefðu aflað væru „skýrar og ógnvekjandi sannanir um að Rússar byggju sig undir tilefnislausa árás og gripu til óþokkabragða til að veikja stjórn Úkraínu“.

Kremlverjar hafna ásökunum um að þeir ætli að ráðast inn í Úkraínu. Þeir vilji hins vegar að orðið sé við kröfum þeirra um að Úkraína fái aldrei aðild að NATO. Bandaríkjamenn og NATO hafa hafnað þeirri kröfu.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti var í Kiev fimmtudaginn 3. febrúar og ræddi við Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta. Erdogan sagði að hann væri reiðubúinn til að miðla málum milli ráðamanna í Kiev og Moskvu. Hann gæti boðað til fundar leiðtoga eða til fundar embættismanna. Zelenskíj þakkað Erdogan boðið og fyrir „traustan og samfelldan“ stuðning hans.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …