Home / Fréttir / Rússar svara refsiaðgerðum Bandaríkjaþings – ESB óttast áhrif á orkumarkað

Rússar svara refsiaðgerðum Bandaríkjaþings – ESB óttast áhrif á orkumarkað

 

Bandaríska sendiráðið í Moskvu.
Bandaríska sendiráðið í Moskvu.

Rússnesk stjórnvöld stigu fyrsta skrefið föstudaginn 28. júlí til að svara hertum refsiaðgerðum sem Bandaríkjaþing hefur samþykkt gegn þeim vegna grunsemda um afskipti þeirra af bandarísku forsetakosningunum 2016. Hafa Rússar bannað Bandaríkjamönnum afnot af tveimur húseignum og gefið fyrirmæli um að starfsmönnum bandaríska utanríkisráðuneytisins í Rússlandi verði fækkað fyrir lok ágúst.

Um nokkurra vikna skeið hefur legið í loftinu að gripið yrði til aðgerða sem þessara gegn Bandaríkjamönnum. Þær voru kynntar opinberlega daginn eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti víðtækari efnahagsþvinganir en áður gegn Rússum samhliða refsiaðgerðum gegn Írönum og Norður-Kóreumönnum. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti lagafrumvarp sama efnis þriðjudaginn 25. júlí. Lögin fara nú til Donalds Trumps forseta til staðfestingar.

Í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins vegna nýju laganna sagði að þau sýndu enn og aftur öfgafulla árásarhneigð Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi.

Óljóst er hvort Trump skrifi undir lögin. Bent er á að hann eigi erfitt með að gera annað í ljósi rannsóknar á vegum þingsins á hugsanlegu leynimakki manna í kosningastjórn hans við Rússa og með vísan til þess að repúblíkanar hafa bæði meirihluta í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings.

Miðvikudaginn 26. júlí sagði þýska utanríkisráðuneytið að þýska stjórnin „gæti ekki samþykkt“ að bandarískum refsiaðgerðum gegn Rússum yrði beitt sem tæki við að ná fram stefnu í atvinnumálum.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, benti á að næði bandaríska lagafrumvarpið fram að ganga gæti það haft áhrif á „orku öryggishagsmuni“ Evrópuþjóða. ESB hefði þegar undirbúið nauðsynlegar gagnaðgerðir. „Stefnan um Bandaríkin í fyrsta sæti getur ekki þýtt að hagsmunir Evrópu reki lestina,“ sagði Juncker.

Rússneska utanríkisráðuneytið sakaði Bandaríkjaþingmenn um að nota „pólitísk tæki til að skapa Bandaríkjunum forskot í heimsviðskiptum“.  Í yfirlýsingu ráðuneytisins föstudaginn 28. júlí sagði einnig: „Þessi fjárkúgun sem hefur að markmiði að takmarka samstarf Rússa við alþjóðlega samstarfsaðila ógnar mörgum þjóðum og alþjóðafyrirtækjum.“

Starfsmenn forsetans slá úr og í þegar spurt er um afstöðu forsetans. Í kosningabaráttunni hét hann bættum samskiptum við Rússa.

Frá og með 1. september 2017 er Bandaríkjastjórn heimilt að hafa 455 starfsmenn frá Bandaríkjunum á vegum utanríkisráðuneytis síns í Rússlandi.  Rússar mega hafa jafnmarga utanríkisþjónustumenn frá Rússlandi í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn halda úti sendiráði í Moskvu og ræðisskrifstofum í St. Pétursborg, Vladivostok og Jekaterinborg.

Vegna óljósrar skilgreiningar á þeim sem falla undir þá sem teljast starfsmenn bandarísku utanríkisþjónustunnar í fyrirmælum Rússa er ekki vitað hve margir Bandaríkjamenn eru í raun reknir frá Rússlandi vegna þessa.

Frá og með 1. ágúst er bandarískum sendiráðsmönnum bannað að nýta sér bandarískt vöruhús í Moskvu og jafnframt er þeim bannað að fara inn á svæði við Moskvuána sem er vinsælt til útivistar og þar sem sendiráðið hefur aðstöðu.

Starfsmenn Trumps beittu sér setningu laganna á Bandaríkjaþingi af því að þar er mælt fyrir um að forsetinn megi ekki létta þvingunum af Rússum án þess að hafa til þess samþykki þingsins.

Í nýju lögunum eru hertar refsiaðgerðir gegn Rússum. Þær komu fyrst til sögunnar á árinu 2014 eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga og hófu íhlutun gegn stjórn Úkraínu. Með upphaflegu aðgerðunum voru settar skorður við þátttöku Bandaríkjamanna í olíuiðnaði Rússa og þrengt að aðgangi Rússa að vestrænum fjármálamörkuðum. Rússar svöruðu með víðtæku innflutningsbanni á matvæli.

Í nýju lögunum er að finna ákvæði um víðtækara bann á ýmsum sviðum, einkum varðandi orkumál. Eins og áður segir hafa stjórnvöld Þýskalands og ESB látið í ljós áhyggjur vegna hugsanlegra áhrifa laganna á orkusviðskipti sín. Þau kunna að hafa áhrif á ákvarðanir sem taka verður á næstunni um lagningu gasleiðslunnar frá Rússlandi um Eystrasalt til Þýskalands, Nord Stream 2 leiðslunnar.

Heimild: The New York Times og Deutsche Welle

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …